Fréttir og tilkynningar


Stolnir farsímar stöðvaðir við tollskoðun

7.5.2015

Tollverðir stöðvuðu nýverið póstsendingu sem var á leið úr landi og reyndist hafa að geyma fjóra stolna farsíma.

Að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði verið fylgst sérstaklega með póstsendingum úr landi vegna tíðra símaþjófnaða á skemmtistöðum að undanförnu. Embætti Tollstjóra mun halda slíku eftirliti áfram í ljósi ofangreinds atviks.

Þessi umrædda sending var stíluð á erlendan einstakling í París og skráður sendandi var karlmaður sem búsettur hefur verið hér á landi síðan 2011.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór með rannsókn málsins og í ljós kom að símunum sem í sendingunni voru hafði öllum verið stolið á veitingastöðum í Reykjavík. Eigendum símtækjanna hefur verið tilkynnt að þau séu í vörslum lögreglu og þeir fái þau í hendur á næstu dögum. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum