Fréttir og tilkynningar


Svika-SMS send út í nafni Skattsins

8.7.2024

Skatturinn varar við skilaboðum sem mörgum landsmönnum hafa borist undanfarna daga í nafni Skattsins. Þar reyna svikulir einstaklingar að komast inn á heimabanka og svíkja út fé.

Skattinum og Lögreglunni hafa borist ábendingar um að verið sé að senda út SMS í nafni Skattsins þar sem reynt er að komast inn á heimabanka móttakenda. 

Þessar SMS sendingar eru ekki á vegum Skattsins heldur eru þetta netsvik. 

Svikin eru mjög sannfærandi en í þeim berst fólki SMS þar sem segir að staðfesta þurfi bankaupplýsingar. Smelli fólk á hlekkinn opnast heimasíða sem er nákvæm eftirlíking heimasíðu Skattsins og fólk svo beðið um að velja sinn banka og staðfesta valið með rafrænum skilríkjum.

Rétt er að benda á að í þessu tilfelli er vefslóðin skatturinn.com sem Skatturinn notar ekki. Þá eru engar aðrar upplýsingar að finna á heimasíðunni og ekki hægt að skoða annað efni. 

Tilkynna um grunsamlegar sendingar

Gruni þig að sending sem þér hafi borist sé sviksamleg er gott ráð að tilkynna hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og/eða lögreglu.

Hafir þú orðið fyrir barðinu á svikahröppum skal leita til lögreglu.

Einkenni netsvika í eru gjarnan:

  • Málvillur og einkennilegt málfar
  • Tilkynning um inneign eða skuld sem þú áttir ekki von á
  • Skuld eða inneign ekki greidd eftir hefðbundnum traustum leiðum
  • Óskað eftir kortanúmeri, innskráningu með rafrænum skilríkjum eða öðrum fjárhagsupplýsingum
  • Vefslóð óvenjuleg

Svikatilraunir sem þessar eru oft sannfærandi og trúverðugleiki þekktra fyrirtækja og stofnana eru notuð til að blekkja.

Gott ráð er að smella aldrei á hlekki sem berast, hvort sem grunur um netsvik er til staðar eða ekki. Betra er að opna nýjan vafraglugga og finna vefsíðu stofnunarinnar eða fyrirtækisins upp á eigin spýtur.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum