Fréttir og tilkynningar


Tæp tíu þúsund tonn af ólöglegum matvælum gerð upptæk

4.5.2017

Tæplega 10 þúsund tonn af ólöglegum matvælum, rúmar 26.4 milljónir lítra af ólöglegum drykkjarvörum og 13 milljónir eininga af annarri ólöglegri framleiðslu voru gerð upptæk í viðamikilli alþjóðlegri aðgerð undir heitinu Opson VI, sem lauk nýverið. 

Áætlað andvirði hins ólöglega varnings nam 230 milljónum evra.

Framleiðslan sem gerð var upptæk, vegna mögulegrar hættu á að hún gæti verið skaðleg heilsu almennings, var mjög fjölbreytt, allt frá áfengi, sódavatni, kryddteningum, sjávarréttum og ólívuolíu til lúxusvarnings svo sem kavíars.

Að þessu sinni tóku samtals 61 land þátt í aðgerðinni, sem hefur verið framkvæmd sex sinnum með stöðugt vaxandi fjölda þátttökulanda.

Að hálfu Íslands tóku íslenska tollgæslan og Matvælastofnun þátt í Opson VI sem gerð var á vegum Europol, Interpol. Nutu tollgæslan og MAST liðsinnis embættis ríkislögreglustjóra og tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol við verkefnið.

Ákveðið var að í þetta skipti skyldu skoðaðar einkasendingar með fæðubótarefnum og þá sérstaklega frá netverslunum í Bandaríkjunum. Sendingar voru stöðvaðar til að athuga hvort þær innihéldu ólögleg efni. Til dæmis fundust í þeim glúkósamín og melatónín, sem eru skilgreind sem lyf hérlendis. Einnig fundust svokölluð psychostimulants og nootropics, örvandi lyf og lyf sem efla heilastarfsemina en eru ekki leyfð hér.

Samkvæmt Europol og Interpol staðfesti aðgerðin að glæpamenn svífast einskis þegar kemur að matvælasvikum og engin tegund matvæla eða drykkja er undanskilin. Mannslíf eru einskis virði ef hagnaðarvon er fyrir hendi.

Sem fyrr er markmið Opson aðgerðanna að vernda heilsu og öryggi almennings gegn ólöglegum matvælum og drykkjarvöru og jafnframt að stöðva slíka framleiðslu. Fóru allmargar handtökur fram í tengslum við aðgerðina.

Sjá nánar: https://www.europol.europa.eu/newsroom/news/eur-230-million-worth-of-fake-food-and-beverages-seized-in-global-opson-operation-targeting-food-fraud og: https://www.interpol.int/News-and-media/News/2017/N2017-052


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum