Fréttir og tilkynningar


Tæpar 17 milljónir króna í sekt fyrir brot á skattalögum

30.12.2020

Landsréttur hefur dæmt tvo menn fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald í rekstri einkahlutafélags, en annar þeirra var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins en hinn daglegur stjórnandi þess.

Brotin frömdu þeir með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum annars vegar ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri þess og hins vegar með því að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið í samræmi við kröfur laga. Vísuðu þeir hvor á annan um ábyrgð á skattskilum og bókhaldi félagsins. Í héraðsdómi hafði annar aðilinn verið sýknaður en hinn sakfelldur og jafnframt verið gert að greiða um 25 milljónir króna í sekt. Landsréttur taldi þá báða hafa annast stjórn félagsins og hafa af ásetningi gerst seka um refsiverða háttsemi. Báðir voru þeir dæmdir í skilorðsbundið fangelsi og hvorum um sig gert að greiða 8,4 milljóna króna sekt, 16,8 milljónir samtals, en hinn vangreiddi virðisaukaskattur nam tæpum 8,4 milljónum króna.

Dómur Landsréttar 18. desember 2020 í máli nr. 318/2019


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum