Fréttir og tilkynningar


Tekið við óhreinum reiðfatnaði í Leifsstöð

10.8.2011

Samkvæmt gildandi lögum og reglum er óheimilt að flytja inn notaðan reiðfatnað til landsins nema að undangenginni hreinsun og sótthreinsun.

Hestamönnum sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins býðst nú að afhenda reiðfatnað til hreinsunar í rauða hliðinu í Leifsstöð.

  • Óhreinum reiðfatnaði skal framvísa í „rauða hliðinu" í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka, -úlpur, -skó, -stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.)
  • Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu" í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda, fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.
  • Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt.
  • Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.

Ítarefni

Fréttatilkynning frá Matvælastofnun

Leiðbeiningar og reglur um innflutning á notuðum reiðfatnaði/reiðtygjum


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum