Fréttir og tilkynningar


Tekinn með rúmlega eitt kíló af hassi

11.6.2015

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar stöðvuðu fyrr í mánuðinum karlmann á þrítugsaldri, sem var með 1.2 kíló af hassi falið í ferðatösku sinni.

Maðurinn, sem er grænlenskur ríkisborgari, var að koma frá Danmörku 3. júní sl. og átti bókað flugfar til Grænlands sama dag. Hassið kvaðst hann hafa ætlað til eigin nota og mögulegrar sölu í Grænlandi.

Lögreglan á Suðurnesjum fór með rannsókn málsins, sem er nú lokið og hefur málið verið sent til ákæruvaldsins.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem tollverðir stöðva flugfarþega með hass í fórum sínum, því 5. maí síðastliðinn var karlmaður á fertugsaldri tekinn með tæp 800 grömm af efninu. Hann var einnig að koma frá Danmörku og var á leiðinni til Grænlands. Hassið hafði hann falið í möppu.

Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum