Fréttir og tilkynningar


Tekjufallsstyrkir – Lokunarstyrkir

23.12.2020

Þótt unnið hafi verið fram á nætur mun ekki takast að hefja móttöku á umsóknum um tekjufallsstyrki fyrr en á nýju ári. 

Tekjufallsstyrkir

Um er að ræða flókna umsókn þar sem þarf að taka tillit til margra atriða sem hafa áhrif á útreikninga á styrknum. Sem dæmi má nefna að nokkrar leiðir voru lögfestar til að reikna það tekjufall sem er megin forsenda fyrir styrknum, heimilað var við ákveðnar aðstæður að byggja á kostnaðarupplýsingum frá bæði árinu 2019 og 2020, auk annarra atriða eins og skilyrða sem reglur ESB um ríkisaðstoð setja. Allt hefur þetta leitt til þess að smíði á rafrænni umsókn sem tekur tillit til allra þeirra þátta sem um ræðir hefur tekið mun lengri tíma en ella.

Gert er ráð fyrir því að móttaka á umsóknum um tekjufallsstyrki hefjist fyrir 10. janúar n.k. en umsóknarfrestur er til 1. maí 2021. Ef umsókn er fullnægjandi á afgreiðsla hennar einungis að taka örfáa daga jafnvel þótt Skatturinn hafi tvo mánuði til þess.

Lokunarstyrkir

Búið er að afgreiða 294 umsóknir af þeim 456 sem borist hafa um lokunarstyrk 3 og er samanlögð styrkfjárhæð rétt um 718 milljónir kr. Ástæðan fyrir því að ekki er búið að afgreiða þær 162 umsóknir sem eftir standa er í lang flestum tilvikum sú að umsækjandi á eftir að undirrita umsókn sína og hefur þess vegna ekki lokið við hana að fullu. Eru þeir sem svo er ástatt um hvattir til að ganga frá umsóknum með undirritun þannig að unnt verði að afgreiða þær sem fyrst.  


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum