Fréttir og tilkynningar


Tekjufallsstyrkir - Stefnt að opnun fyrir jól

18.12.2020

Því miður tókst ekki að hefja móttöku á umsóknum um tekjufallsstyrki í þessari viku. Umsóknarferlið er flókið og margþætt og ýmislegt hefur komið upp á sem orðið hefur til þess að tefja málið þótt unnið sé fram á kvöld og um helgar að þessu verkefni.

Mörg skilyrði eru fyrir því að fá tekjufallsstyrki, auk þess sem heimilt er í ákveðnum tilvikum að líta til fleiri en eins rekstrarárs við útreikningana. Allt leiðir þetta til þess að forritun verður flóknari og tímafrekari. Þá eru margir boltar á lofti samtímis hjá tæknimönnum bæði innan embættisins og í aðkeyptri þjónustu og verkefni tengd úrræðum stjórnvalda vegna COVID-19 tímafrek og mörg.

Eins og staðan er núna er stefnt að því að hægt verði að hefja móttöku á umsóknum fyrir jól. Unnið er hörðum höndum að því að þetta verði raunin en þó er aldrei hægt að útiloka að eitthvað komi upp sem breyti þeim fyrirætlunum. 

Uppfært 23.12.2020

Þótt unnið hafi verið fram á nætur mun ekki takast að hefja móttöku á umsóknum um tekjufallsstyrki fyrr en á nýju ári. Gert er ráð fyrir því að móttaka á umsóknum um tekjufallsstyrki hefjist fyrir 10. janúar n.k. en umsóknarfrestur er til 1. maí 2021.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum