Tollstjórar Norðurlandanna heimsóttu Úkraínu

27.3.2025

Tollstjórar Norðurlandanna heimsóttu Úkraínu í vikunni til þess að styðja við starfsemi úkraínskra stjórnvalda á stríðstímum. Þátttakendur í heimsókninni ræddu hvernig tollyfirvöld geta með margvíslegum hætti stutt við baráttuna gegn spillingu og smygli.

Stuðningur við Úkraínu er jafnframt liður í daglegum störfum tollyfirvalda sem framfylgja viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins.

Sami Rakshit, tollstjóri í Finnlandi, Øystein Børmer, tollstjóri í Noregi, Johann Norrman, tollstjóri í Svíþjóð, Christian Lützen, tollstjóri í Danmörku og Snorri Olsen, ríkisskattstjóri á Íslandi, sem jafnframt veitir Tollgæslu Íslands forstöðu, heimsóttu Kyiv í Úkraínu dagana 23. til 25. mars 2025.

Tilgangur heimsóknarinnar var að styðja við starfsemi úkraínskra stjórnvalda á stríðstímum og greina margvíslegar leiðir til þess að styðja með tollframkvæmd við Úkraínu til framtíðar. Auk þess að funda með úkraínskum tollyfirvöldum þá áttu norrænu tollstjórarnir fundi með fulltrúum borgaralegrar hættustjórnunaraðgerðar ráðgefandi sendinefndar ESB í Úkraínu (EUAM) og fulltrúum sendinefndar ESB. Gestirnir kynntust einnig úkraínsku stofnuninni um efnahagslegt öryggi, og samhæfingarmiðstöðvum landamæragæslu og aðgerða gegn smygli. Þá funduðu norrænu tollstjórarnir með fjármálaráðherra Úkraínu og ræddu umbætur á sviði tollamála í landinu og mögulega aðkomu tollyfirvalda Norðurlandanna.

Tollstjórarnir og úkraínsk stjórnvöld ræddu aðildarferli Úkraínu að ESB sem og þróun tollframkvæmdar. Í brennidepli voru umræður um möguleika tollyfirvalda á því að sporna gegn spillingu, og sérstaklega á því að fyrirbyggja smygl á vopnum og skotfærum.

Þá skiptust úkraínsk stjórnvöld og tollstjórar Norðurlandanna á skoðunum um hvernig viðhalda megi viðbúnaði og tryggja rekstur við afbrigðilegar aðstæður. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum