Fréttir og tilkynningar


Tollverðir haldlögðu hass í Leifsstöð

8.9.2015

Tollverðir fundu um síðustu mánaðarmót um 700 grömm af hassi í farangri flugfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Maðurinn var á leið til Grænlands þegar hann var stöðvaður.

Í snyrtitösku í ferðatösku hans voru fjórar pakkningar af hassi, sem pakkað hafði verið inn í sellófan.

Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn og færði hann á lögreglustöð. Rannsókn málsins er lokið.

Þetta er í fjórða skiptið á þessu ári sem tollverðir stöðva farþega á leið til Grænlands, sem eru með umtalsvert magn af hassi í fórum sínum. Mesta magnið sem tekið hefur verið í einu voru 5.5 kíló sem tollverðir lögðu hald á í júlímánuði síðastliðnum.

Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum