Tollyfirvöld hætta innheimtu gjalds af eftirlitsskyldum rafföngum
Með dómi Landsréttar í máli nr. 744/2020 var innheimta gjalds af eftirlitsskyldum rafföngum (QB-gjald) dæmd ólögmæt. Gjaldtakan byggðist á 14. gr. laga nr. 146/1996 og var nánar útfærð í grein 9.2. reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki.
Niðurstaða Landsréttar byggðist á því að þar sem ráðherra var framselt vald til að ákveða hlutfall þess eftirlitsgjalds sem um var deilt, án annarra takmarkana en fólust í hámarki þess, stæðist gjaldtakan ekki lagaáskilnaðarkröfur 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.
Í samræmi við
niðurstöðu Landsréttar hafa tollyfirvöld ákveðið að frá og með 20. apríl 2022
verði innheimtu gjaldsins hætt við innflutning og unnið er að endurgreiðslu
gjaldsins til innflytjenda, sbr. ákvæði laga nr. 150/2019.