Fréttir og tilkynningar


Tölulegar upplýsingar um álagningu einstaklinga 2023

31.5.2023

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2023, á tekjur ársins 2022. Tekjuskattur og útsvar hafa að mestu þegar verið innheimt í staðgreiðslu en í álagningunni fer fram endanlegt uppgjör þessara skatta.

Þar að auki er lagt á útvarpsgjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa og tryggingagjald, sem lagt er á einstaklinga með rekstur í eigin nafni. Við álagningu eru einnig ákvarðaðar barna- og vaxtabætur.

Þann 1. júní nk. verða inneignir samkvæmt niðurstöðum álagningar lagðar inn á bankareikninga þeirra gjaldenda sem eiga inni hjá ríkissjóði.

Fjöldi framteljenda og áætlaðir aðilar

Framteljendum á skattgrunnskrá fjölgar á milli ára, en á grunnskrá voru nú 332.069 einstaklingar, 14.502 fleiri en fyrir ári sem er fjölgun um 4,57%. Skattar 19.729 einstaklinga voru áætlaðir en það er um 5,94% af heildarfjölda. Undanfarin ár hafa skattskil farið batnandi og er hlutfall áætlana nú svipað og í fyrra.

Rafræn framtalsgerð

Ríkisskattstjóri hefur í gegnum tíðina leitast við að bæta þjónustu við framteljendur. Nú er orðið mun auðveldara fyrir flesta að telja fram til skatts þar sem framtöl eru að mestu leyti unnin rafrænt og samskipti við framteljendur fara að miklu leyti fram á netinu. Betri skil gagna og aðstoð við framteljendur hafa fækkað villum og einfaldað framtalsgerðina fyrir all flesta. Hefðbundin pappírsframtöl heyra sögunni til en nú skiluðu 99,78% framteljenda rafrænu skattframtali.

Framlagning álagningarskrár og kærufrestur

Álagningarskrá einstaklinga verður lögð fram fimmtudaginn 17. ágúst og liggur frammi í 15 daga, til og með 31. ágúst.

Kærufrestur vegna álagningarinnar rennur út þann 31. ágúst nk.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum