Fréttir og tilkynningar


Um 7000 tonn af spilliefnum stöðvuð

30.1.2014

Alþjóðleg aðgerð tollyfirvalda, sem er nýlokið, leiddi til þess að ólöglegur flutningur sjóleiðis á um 7000 tonnum af spilliefnum og úrgangi var stöðvaður.

Embætti Tollstjóra á Íslandi tók þátt í aðgerðinni sem fól í sér eftirlit á flutningi frá Evrópu og öðrum svæðum til Asíu.

Þau 7000 tonn sem haldlögð voru í henni samanstóðu einkum af spilliefnum, vélahlutum, vefnaðarvöru, raftækja- og rafeindabúnaði og hjólbörðum. Aðgerðin, sem nefnd var "Operation Demeter III" beindist gegn ólöglegum flutningi á spilliefnum og úrgangi frá Evrópu til Asíu. Sú óheillaþróun hefur átt sér stað, að Asía og Afríka eru í auknum mæli að verða eins konar "sorpgeymslur" fyrir úrgang af því tagi sem eyðist ekki, en getur verið ógn við lýðheilsu og umhverfi. Að þessu sinni beindu menn sjónum sínum að þeim vandamálum sem steðja að í Asíu af þessum sökum. "Operation Demeter III" stóð yfir í fimm vikur í október og nóvember á síðasta ári og í henni tóku þátt tollverðir frá 44 löndum. Ekkert mál af þessum toga kom hér á landi á því tímabili. Rétt er að taka það fram, að mál það sem upp er komið varðandi skip frá Moldóvu, er lá í Hafnarfjarðarhöfn, tengist ekki aðgerðinni.

Rannsóknir standa nú yfir á þeim málum sem upp komu í átakinu.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum