Umsókn um breytingar á skilamáta í virðisaukaskatti

5.2.2025

Rekstraraðilar á virðisaukaskattsskrá sem seldu virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á árinu 2024 geta óskað eftir því við ríkisskattstjóra að nota almanaksárið 2025 sem uppgjörstímabil (ársskil) í stað tveggja mánaða skila. 

Athugið að ef fyrirsjáanlegt er að ársvelta 2025 fari yfir fjórar milljónir er ekki ráðlegt að skipta yfir í ársskil.

Umsókn á þjónustuvef Skattsins

Sækja þarf um ársskil fyrir 15. febrúar 2025 með haki í þar til gerðan reit á virðisaukaskattsskýrslu vegna tímabilsins nóvember-desember 2024, eða vegna ársins 2024 ef aðili er skráður í ársskil.

Hafi skýrslu þegar verið skilað fyrir þetta tímabil þarf að fara í „skila skýrslu“ og kemur þá upp valmöguleiki um ársskil ef skilyrði um veltu eru uppfyllt.

Sé fallist á ársskil þarf að standa skil virðisaukaskattsskýrslu vegna almanaksársins 2025 ásamt greiðslu í síðasta lagi á gjalddaga þann 5. febrúar 2026.

Ef velta fer yfir 4.000.000 á árinu

Ef virðisaukaskattsskyld velta rekstraraðila í ársskilum fer yfir mörk ársskila, 4.000.000 kr., á almanaksárinu 2025 þarf að skila inn VSK-skýrslu og gera upp virðisaukaskatt ársins samkvæmt henni á gjalddaga næsta almenna uppgjörstímabils. 

Til dæmis ef velta í ársskilum fer yfir 4.000.000 kr. þann 15. júní 2025 skal gera upp virðisaukaskatt tímabilsins janúar-júní 2025 á gjalddaga tímabilsins maí-júní 2025, þann 5. ágúst 2025.

Upp frá því skal VSK-skýrslu skilað á tveggja mánaða fresti.

Rekstri hætt

Aðili í ársskilum sem hættir rekstri á miðju ári þarf að gera skil á virðisaukaskatti viðkomandi árs á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils sem starfsemi lýkur á.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum