Fréttir og tilkynningar


Undirritun tvísköttunarsamnings við Ástralíu

12.10.2022

Tvísköttunarsamningur milli Íslands og Ástralíu var undirritaður í utanríkisráðuneytinu í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Kerin Ann Burns Ayyalaraju sendiherra Ástralíu gagnvart Íslandi undirrituðu samninginn.

„Þrátt fyrir fjarlægðina er Ástralía mikilvægt viðskiptaland Íslands og löndin eiga auk þess í góðu samstarfi á alþjóðavettvangi. Samningurinn auðveldar íslenskum fyrirtækjum og almenningi að stunda fjárfestingar, viðskipti og atvinnu í Ástralíu. Hann hefur verið lengi í undirbúningi og þess vegna fagna ég mjög þessu skrefi sem við tókum í dag í átt að auknu viðskiptafrelsi þjóðarinnar. Um þetta snýst íslensk utanríkisviðskiptastefna“ sagði Þórdís Kolbrún að undirrituninni lokinni.

Markmið með gerð tvísköttunarsamningsins við Ástralíu, sem nær til tekjuskatta, er að koma í veg fyrir tvísköttun á viðskipti milli ríkjanna og vinna gegn skattaundanskotum. Með því að ryðja úr vegi skattalegum hindrunum mun samningurinn auðvelda viðskipti milli ríkjanna og hvetja til gagnkvæmra fjárfestinga. Ennfremur mun samningurinn jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi og auka fyrirsjáanleika í viðskiptum.

Ástralía er mikilvægt viðskiptaland Íslands og hefur samningurinn lengi verið í undirbúningi. Bæði ríkin eiga aðild að OECD (Efnahags- og framfarastofnuninni) og er samningurinn í samræmi við stefnumörkun þess.

Samningurinn er þáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar að svara ákalli viðskiptalífsins um fjölgun tvísköttunarsamninga. Á næstu mánuðum munu stjórnvöld beggja ríkja vinna að fullgildingu samningsins.

Frétt stjórnarráðsins um undirritun tvísköttunarsamningsins

Lesa nánar um tvísköttunarsamninga


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum