Fréttir og tilkynningar


Úrskurðir héraðsdóms um frávísun mála

11.10.2019

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með úrskurðum, dags. 4. október sl., vísað frá málum héraðssaksóknara gegn tilteknum tónlistarmönnum.

Kröfur tónlistarmannanna um frávísun voru m.a. byggðar á þeirri málsástæðu að höfðun sakamálanna færi gegn 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um bann við endurtekinni málsmeðferð í sakamálum, þar sem skattamálum þeirra hefði verið endanlega lokið með úrskurðum ríkisskattstjóra um endurákvörðun. Ríkisskattstjóri hafði endurákvarðað skatta þeirra í lok árs 2018 og bætt við 10-25% álagi. 

Í úrskurðum héraðsdóms kom fram að mál ákærðu hefðu verið til meðferðar hjá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara í rúm þrjú ár fram að útgáfu ákæru en málin rekin samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu í fjóra til sjö mánuði. Var það mat dómsins að mikil réttaróvissa væri um hvort uppfyllt væru skilyrði um nægjanlega samþættingu í tíma við rekstur málanna hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar. Þá var það mat dómsins að við þessar aðstæður bæru ákærðu að njóta vafans sem leiddi af réttaróvissunni. Með vísan til þessa m.a. og að ákærur málanna hefðu verið birtar eftir að ákærðu undu úrskurðum ríkisskattstjóra, var það mat dómsins að um endurtekna málsmeðferð hefði verið að ræða og málunum vísað frá dómi.

Úrskurður um frávísun Orra Páls Dýrasonar

Úrskurður um frávísun Georgs Hólm

Úrskurður um frávísun Kjartans Sveinssonar

Úrskurður um frávísun Jóns Þórs Birgissonar


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum