Fréttir og tilkynningar


Úrskurður Landsréttar – Ekki brotið gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttinda­sáttmála Evrópu í skattamáli tveggja bræðra

8.1.2021

Landsréttur hefur fellt úr gildi frávísun héraðsdóms Reykjavíkur gegn tveimur bræðrum sem áður höfðu sætt álagi skattayfirvalda vegna sömu brota og lagt fyrir dóminn að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Málavextir er þeir að mennirnir voru ákærðir fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum m.a. með því að hafa vanrækt að telja fram til skatts hér á landi tekjur sínar og vegna vanframtalinna tekna félaga, sem þeir voru endanlegir eigendur að, skráðum á Kýpur og í Belís. Alls nam vangreiddur tekjuskattur, útsvar og fjármagnstekjuskattur þeirra um 136 milljónum og vangreiddur tekjuskattur félagana rúmum 800 milljónum króna. Málið hófst með rannsókn skattrannsóknarstjóra í október 2009 og var sent til ríkisskattstjóra í október 2015 sem úrskurðaði í júlí 2019 um endurákvörðun gjalda auk 25% álags. Umræddir einstaklingar undu úrskurði ríkisskattstjóra. Í september og desember 2016 vísaði skattrannsóknarstjóri málunum einnig til héraðssaksóknara sem gaf út ákærur í júlí 2019. Ákærðu kröfðust frávísunar ákæranna á grundvelli þess að þeir höfðu þegar sætt málsmeðferð og sakfellingu hjá skattayfirvöldum og þess vegna væri ný málsókn með hugsanlegri refsingu í andstöðu við 1. mgr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Frávísunarkrafa var einnig byggð á því að ákærur fullnægðu ekki skýrleikakröfum 152. gr. laga nr. 88/2008. Héraðsdómur leit svo á að þar sem bræðrunum hefði verið birt ákæra eftir að úrskurður ríkisskattstjóra lá fyrir hafi verið um endurtekna málsmeðferð að ræða. Þá féllst héraðsdómur einnig á þá röksemd að ákæra málsins væri óskýr þannig að það takmarkaði möguleika ákærðu að halda uppi vörnum. Landsréttar úrskurðaði að fullnægt væri skilyrðum um nauðsynlega samþættingu málsmeðferðanna í efni og tíma og því ekki brotið gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Þá taldi rétturinn að ákæra uppfyllti kröfur um skýrleika ákæru, þannig að hinir ákærðu gætu tekið afstöðu til hennar og haldið uppi vörnum gegn henni.

Dómur Landsréttar 22. desember 2020 í máli nr. 509/2020

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum