Fréttir og tilkynningar


Úrskurður ríkisskattstjóra vegna hækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofns, að fjárhæð rúmlega 190.000.000 kr., í kjölfar rannsóknar skattrannsóknar­stjóra, staðfestur að mestu hjá yfirskattanefnd

12.1.2021

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 176/2020 var endurákvörðun ríkisskattstjóra í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum kæranda staðfestur að mestu.

Þótti leitt í ljósi að rekstrartekjur kæranda hefðu verið vanframtaldar í verulegum mæli rekstrarárin 2009, 2010 og 2011 og ýmsir annmarkar hefðu verið á tekjuskráningargögnum kæranda. Við ákvörðun viðbótartekna var talið rétt að líta til greiðslna frá rekstri kæranda inn á bankareikninga nokkurra einkahlutafélaga er honum tengdust og þóttu greiðslurnar tilheyra kæranda. Þá var talið að virða bæri greiðslur Y ehf., félags í eigu kæranda, á árunum 2011, 2012, 2013 og 2014 inn á bankareikninga kæranda og eiginkonu hans, svo og inn á bankareikninga tilgreinda félaga, sem óheimila afhendingu verðmæta til kæranda sem skattleggja bæri sem laun hans. Álag á hækkun skattstofna var fellt niður vegna bráðabirgðaákvæðis LXVIII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, ásamt því sem tekjuviðbót vegna rekstraráranna 2010 og 2011, var lækkuð um tæpar 16 milljónir, þar sem ríkisskattstjóri var talinn hafa tvífært til tekna niðurstöður skattrannsóknarinnar um vantaldar tekjur kæranda. Að öðru leyti var kröfum kæranda um að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi hafnað.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 176/2020 í máli nr. 5/2020, kveðinn upp 16. desember 2020

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum