Vernd í verki: árvekni við landamærin
Alþjóðlegi tolladagurinn, sem haldinn er 26. janúar ár hvert, gefur okkur tilefni til að beina sjónum að mikilvægu hlutverki tollyfirvalda við vernd samfélags manna um allan heim.

Alþjóðlegi tolladagurinn er haldinn fyrir tilstilli Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO), stofnuð árið 1952 sem Tollasamvinnuráðið (Customs Cooperation Council). Stofnunin er sjálfstæð alþjóðastofnun sem hefur það hlutverk að auka skilvirkni og hagkvæmni tollyfirvalda. Í dag eiga tollyfirvöld 187 ríkja um allan heim aðild að stofnuninni og samanlagt vinna þau úr um98% heimsviðskipta. Sem alþjóðleg miðstöð sérfræðiþekkingar á sviði tollamála er WCO eina alþjóðastofnunin með hæfni á sviði tollamála og getur með réttu kallað sig rödd alþjóðlegs tollsamfélags.
Í samstarfi á vegum Alþjóðatollastofnunarinnar fylgist Skatturinn með stefnum og straumum sem varða tollgæslu- og tollskrármál og sinnir hagsmunagæslu vegna íslensks efnahagslífs. Þá hefur Skatturinn lagt lóð á vogarskálar varðandi þverlæg áherslumál íslenskra stjórnvalda, s.s. jafnrétti, fjölbreytileika og þekkingaruppbyggingu.
Á hverju ári velur Alþjóðatollastofnunin (WCO) málefni sem verða í forgrunni í hennar störfum, en árið 2026 verður áhersla á árvekni og skuldbindingu tollyfirvalda þegar kemur að verndun samfélaga. Tollyfirvöld gegna lykilhlutverki í að tryggja öryggi á landamærum, heilbrigði almennings og samkeppnishæfi fyrirtækja, á sama tíma og þau greiða fyrir löglegum viðskiptum og alþjóðlegu samstarfi.
Dagleg störf tollyfirvalda krefjast stöðugrar aðgæslu og mikillar stefnufestu til að stemma stigu við sífellt breytilegum ógnum á landamærum ríkja. Þar ber hæst skipulagða glæpastarfsemi svo sem ólöglegan innflutning fíkniefna, vopna og falsaðs varnings. Slíkar ógnir fara vaxandi og þróast hratt og baráttan gegn þeim krefst mikillar sérfræðiþekkingar, nýrrar tækni og náins samstarfs við fjölda aðila bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Áskoranir stjórnvalda í dag eru fjölþættar og hnattrænar, og auk þátttöku í störfum Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) á Skatturinn því í öflugu samstarfi við önnur tollyfirvöld á Norðurlöndunum á vettvangi norræna tollsamvinnuráðsins (NTR), og þá tekur stofnunin einnig virkan þátt í samstarfi m.a. á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), Evrópuráðsins og Europol.
Árvekni tollyfirvalda styður með markvissum hætti við að samfélög fái að dafna – bæði efnahagslega og félagslega. Með því að tryggja rétta tollframkvæmd styðja þau við sanngjarna samkeppni og heilbrigt viðskiptalíf, og vernda tekjustofna ríkisins.
Ljóst er að umfang verkefna tollgæslu fer vaxandi. Fjöldi skipaafgreiðslna nam 1.954 á árinu 2024 og 33.268 flugvélar lentu á landinu. Fjöldi tollskýrslna í innflutningi hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 2024 nam fjöldi skýrslna tæplega 2,1 milljón en það er rúmlega 9% aukning frá árinu á undan. Fjöldi útflutningsskýrsla hefur staðið nokkuð í stað en árið 2024 var hann tæplega 146 þúsund. Að sama skapi hafa álögð aðflutningsgjöld aukist jafnt og þétt en þar munar mest um virðisaukaskatt sem lagður er á við tollafgreiðslu. Árið 2024 nam álagður virðisaukaskattur í tolli um 295 milljörðum króna en það er um 20 milljarða hækkun frá árinu á undan. Önnur aðflutningsgjöld sem lögð voru á árinu 2024 námu um 50 milljörðum króna.
Á sama tíma er almenningi veitt vernd gegn hættulegum og ólöglegum vörum sem geta ógnað heilsu, öryggi og umhverfi. Á landamærum sinnir tollgæslan eftirliti með innflutningi og gegnir þannig jafnframt mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem í dag á sér alla jafna alþjóðlegar tengingar. Á hverju ári haldleggur tollgæslan þannig ýmsan ólöglegan varning eins og fíkniefni, skotvopn og eggvopn, en einnig reiðufé í fórum manna á ferð um landamæri þegar grunur leikur á að fjármunirnir verði notaðir við brot gegn refsiákvæðum almennra hegningarlaga. Haldlagning á fíkniefnum hefur aukist töluvert undanfarin ár og árið 2025 var metár í þeim efnum. Árið 2024 var lagt hald á 18 skotvopn, 15 eggvopn og 12 önnur vopn. Þá var lagt hald á tæpa 1800 lítra af áfengi og 256.000 vindlinga og annað tóbak. Lagt var hald á um 78 kg af fíkniefnum á árinu 2024.
Skuldbinding árvökulla tollyfirvalda lýtur að þjónustu við samfélagið í heild. Með gildi Skattsins – fagmennska - framsækni - samvinna – að leiðarljósi, og nýja tækni og alþjóðlegt samstarf í forgrunni, leggur tollgæslan sitt af mörkum til öruggs, stöðugs og blómlegs samfélags.
Höfundar:
Margrét Cela, alþjóðafulltrúi Skattsins
Guðni Ólafsson, sérfræðingur á tollgæslusviði
Sigfríður Gunnlaugsdóttir aðstoðarsviðsstjóri hjá Alþjóðatollastofnuninni
