Fréttir og tilkynningar


Vettvangseftirlit RSK

3.10.2018

Hjá ríkisskattstjóra er starfrækt skatteftirlit sem m.a. sinnir því að heimsækja rekstraraðila og fara yfir hvort staðgreiðsluskil, virðisaukaskattsskil og tekjuskráning virðist vera í lagi. Er þetta gert á landsvísu.

Mynd af starfsmönnum ríkisskattstjóra í vettvangseftirliti að störfum

Ef eitthvað reynist í ólagi eru gefin leiðbeindi tilmæli um úrbætur og síðan athugað aftur hvort gerð hefur verið bragarbót. Heimild er til að loka starfsstöðvum eftir ítrekuð tilmæli um úrbætur.

Á fyrstu átta mánuðum ársins 2018 voru 2.462 fyrirtæki heimsótt, þ.a. 1.136 á höfuðborgarsvæðinu. Heimsóknir á Suðurlandi voru 473, Norðurlandi 386, Vesturlandi 240, Reykjanesi 140 og á Austurlandi voru þær 87. Ef heimsóknirnar eru flokkaðar eftir atvinnugreinum voru 859 til fyrirtækja í byggingargeiranum, 891 í tengslum við gistingu, ferðaþjónustu og veitingastaði, fyrirtæki í verslun og þjónustu voru 457 og verkstæðis- og bílaþjónustu 123. Eftir standa þá 132 fyrirtæki sem voru í annarri starfsemi en áður er talið.

Gerðar voru athugasemdir vegna staðgreiðsluskila hjá 670 fyrirtækjum, vegna virðisaukaskattsskila hjá 204 fyrirtækjum og vegna tekjuskráningar hjá 132 fyrirtækjum. Heimsóknir sem lauk án athugasemda voru 1.626. Skoðað var hvort 5.839 kennitölur einstaklinga væru á staðgreiðsluskrá og var það uppfyllt í 93% tilvika en 413 einstaklingar voru ekki á staðgreiðsluskrá, eða 7% þeirra sem skoðaðir voru. Í þremur tilvikum var starfsstöðvum lokað tímabundið. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum