Viðskiptaliprunarsamningur WTO
Þann 22. febrúar tók viðskiptaliprunarsamningur Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) formlega gildi þegar Rúanda, Óman, Chad og Jórdanía afhentu framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Roberto Azevêdo, skjöl um fullgildingu ríkjanna á samningnum.
Þar með var því marki náð að 2/3 af 164 aðildarríkjum stofnunarinnar hefðu fullgilt samninginn. Um sögulegan viðburð er að ræða þar sem um er að ræða fyrsta marghliða samninginn sem samkomulag hefur náðst um frá stofnun Alþjóða viðskiptastofnunarinnar árið 1995. Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn í október síðastliðnum.
Samningurinn inniheldur ákvæði er varða hraðari og skilvirkari tollframkvæmd. Auknum hraða og bættri skilvirkni skal ná með árangursríkri samvinnu milli tollyfirvalda og annarra viðeigandi yfirvalda varðandi málefni tengd viðskiptaliprun og framfylgd tollalöggjafar. Þá felur hann í sér ákvæði er varða tæknilega aðstoð og þekkingaruppbyggingu á þessu sviði. Skv upplýsingum frá WTO er áætlað að full framkvæmd samningsins ætti að lækka heildar viðskiptakostnað aðildarríkjanna um 14,3% að meðaltali og að þróunarríki ættu jafnvel að geta náð enn betri árangri.