Vörum okkur á netsvikum

1.12.2025

Þrjótar nýta annatíma þegar mikið er að gera til að reyna að svíkja fé af fólki. Það er mikilvægt að vera á varðbergi, vera gagnrýnin og læra að þekkja einkenni netsvika.

Svikatilraunir sem þessar eru oft sannfærandi og trúverðugleiki þekktra fyrirtækja og stofnana notaður til að blekkja. Svikin geta verið að send eru óvænt skilaboð með fölskum upplýsingum og hlekkjum. Sum svik eru þannig að búnar eru til falskar heimasíður þar sem fólk er látið skrá kortanúmer eða skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. 

Mikilvægt er að vera á varðbergi og reyna að þekkja einkenni netsvika. 

Einkenni netsvika eru gjarnan:

  • Vefslóð óvenjuleg
  • Óskað eftir kortanúmeri, innskráningu með rafrænum skilríkjum eða öðrum fjárhagsupplýsingum
  • Málvillur og einkennilegt málfar
  • Tilkynning um inneign eða skuld sem þú áttir ekki von á
  • Skuld eða inneign ekki greidd eftir hefðbundnum traustum leiðum

Góð ráð

  • Smellið aldrei á hlekki í skilaboðum sem berast, opnið frekar nýjan vafraglugga og finnið vefsíðu stofnunar eða fyrirtækis upp á eigin spýtur
  • Skoðið netfang og vefslóð gaumgæfilega
  • Skráið ykkur ekki inn nema að vel athuguðu máli
  • Samþykkið ekki innskráningu á rafræn skilríki sem koma upp úr þurru

Þess má geta að Skatturinn óskar ekki eftir kortanúmerum og öll erindi eiga að vera aðgengileg í Stafrænu pósthólfi á Ísland.is eða á þjónustuvef Skattsins. 

Tilkynna um grunsamlegar sendingar

Gruni þig að sending sem þér hefur borist sé sviksamleg er gott ráð að tilkynna hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og/eða lögreglu.

Hafir þú orðið fyrir barðinu á svikahröppum skal leita til lögreglu.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum