Fréttir og tilkynningar


VSK-ívilnun vegna kaupa á rafmagnsbifreiðum fellur niður um áramót

24.11.2023

Undanfarin ár hafa verið í gildi sérstakar ívilnanir fyrir kaupendur og innflytjendur rafmagns- og vetnisbifreiða. Þessar ívilnanir munu að óbreyttu falla niður um næstu áramót.

Þessar ívilnanir eru annars vegar heimild til þess að fella niður virðisaukaskatt að tilteknu hámarki við innflutning og hins vegar heimild til þess að tiltekin hámarksfjárhæð sé undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. fellur utan skattskyldrar veltu, við fyrstu sölu þessara farartækja. 

Upp hafa vaknað spurningar um meðferð virðisaukaskatts vegna kaupa á þessum farartækjum ef þau eru pöntuð og greidd að fullu eða hluta fyrir áramót en verða ekki afhent fyrr en á nýju ári.

Greiðsla innan tilgreindra fjárhæðamarka fyrir áramót ber ekki virðisaukaskatt

Það er mat ríkisskattstjóra að greiði kaupandi inn á kaupverð t.d. rafmagnsbifreiðar eða rafhjóls eða greiði kaupverðið að fullu fyrir næstu áramót fer um þá innborgun samkvæmt gildandi lögum, þ.e. greiðsla að heimiluðum fjárhæðarmörkum telst þá ekki til skattskyldrar veltu seljanda og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri fjárhæð. Áskilið er að við innborgun eða fullnaðargreiðslu sé gefinn út sölureikningur eða kvittun sem uppfyllir allar forms- og efniskröfur lögum samkvæmt.

Greiðsla eftirstöðva umfram heimiluð fjárhæðamörk ber virðisaukaskatt, hvort sem hún er innt af hendi fyrir eða eftir áramótin.

Virðisaukaskattur lagður á við innflutning frá 1. janúar 2024

Frá og með 1. janúar 2024 verður virðisaukaskattur lagður á við tollafgreiðslu rafmagns- og vetnisbifreiða enda verður heimild til niðurfellingar þá að óbreyttu fallin úr gildi.

Ýmsir rekstraraðilar sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi, einkum sölu eða leigu bifreiða, hafa heimild til að telja greiddan virðisaukaskatt við innflutning ökutækja til innskatts. Hefur álagning virðisaukaskatts við innflutning því ekki áhrif á heildarkostnað bifreiðarinnar hjá seljanda þrátt fyrir að kaupandi hafi fengið niðurfelldan virðisaukaskatt af kaupverðinu að hluta eða heild. Aðrir innflytjendur vistvænna ökutækja þurfa því að bera þann virðisaukaskatt sem lagður er á við innflutninginn eftir næstu áramót.

BREYTING

Áður stóð í þessari frétt að ívilnanir vegna kaupa á rafmagnshjólum myndu falla niður um áramót. Við samþykkt laganna var ívilnun vegna þeirra framlengd og þær upplýsingar því fjarlægðar úr fréttinni. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum