Fréttir og tilkynningar


Yfirskattanefnd fellst á kröfu kæranda um að 10 ára tímafrestur til endurákvörðunar vegna tekna og eigna í lágskattaríki eigi ekki við

24.6.2020

Yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra sem kveðinn var upp í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda árin 2010-2013.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins var leitt í ljós að kærandi fékk launagreiðslur vegna starfa fyrir X ehf. árin 2010 og 2011 án þess að gera grein fyrir þeim í skattskilum sínum. Launin voru greidd í gegnum erlend félög, m.a. félag skráð í Panama. Í málinu var deilt um það hvort tíu ára tímafrestur til endurákvörðunar vegna tekna og eigna skattaðila í lágskattaríkjum ætti við í tilviki kæranda. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að um væri að ræða íþyngjandi sérreglu um heimild til endurákvörðunar við tilteknar aðstæður. Taldi yfirskattanefnd varhugavert að skýra ákvæðið rýmra en svo að það tæki eingöngu til þess þegar endurákvörðun beindist að eign hlutaðeigandi skattaðila í lágskattaríki, hvort heldur um beina eða óbeina eignaraðild eða annars konar yfirráð væri að ræða, og tekjum hans af þeirri eign. Þar sem talið var liggja fyrir að kærandi hefði ekki verið eignaraðili að erlenda félaginu og ekki komið að starfsemi félagsins var krafa kæranda tekin til greina og breytingar ríkisskattstjóra felldar niður.

Úrskurður yfirskattanefndar


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum