Yfirskattanefnd staðfestir endurákvörðun ríkisskattstjóra vegna tæplega 80 milljóna undanskots
Yfirskattanefnd hefur staðfest endurákvörðun ríkisskattstjóra í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum einstaklings.
Um var að ræða óheimilar lánveitingar frá X ehf. og úttektir samkvæmt greiðslukortum frá erlendum fjármálafyrirtækjum sem greiddar voru af erlendum reikningi Y ehf. á árunum 2011-2016. Samtals var um að ræða tæplega 80 milljónir króna. Viðkomandi einstaklingur átti allt hlutafé í báðum félögunum, ýmist einn eða með eiginkonu sinni. Hann hélt því m.a. fram að um hefði verið að ræða fjármuni sem ekki hefðu stafað frá X ehf., þar sem hann hefði fengið lán frá öðru félagi, P, sem í kjölfarið hefði framselt þá kröfu endurgjaldslaust til X ehf. Yfirskattanefnd gaf lítið fyrir þá röksemd í ljósi náinna tengsla fyrirtækja viðkomandi, þ.e. X ehf., Y ehf. og P.