Breytingar um áramót vegna innflutnings og gjaldtöku vegna ferðamanna
Vakin er athygli á ýmsum breytingum sem tóku gildi vegna innflutnings og gjaldtöku vegna farþega og ferðamanna í skemmtiferðaskipum til landsins frá 1. janúar sl. Einnig hafa tilteknar tímabundnar heimildir eldri laga fallið úr gildi.
Vörugjöld
Hækkun varð á vörugjaldi á bensíni og sérstöku vörugjaldi af bensíni.
Heimild til að endurgreiða viðurkenndum heildarsamtökum björgunarsveita og -sveitum sem starfa innan þeirra almennt og sérstakt vörugjald vegna kaupa á bensíni á farartæki í þeirra eigu er fallin úr gildi.
Tollfrelsi skemmtiferðaskipa framlengt
Tollfrelsi skemmtiferðaskipa sem skráð eru erlendis en notuð eru í innanlandssiglingum hér við land í allt að fjóra mánuði á ári, á hverju tólf mánaða tímabili, er framlengt til 1. janúar 2026.
Innviðagjald og gistináttaskattur
Nýtt innviðagjald, í stað gistináttaskatts, er lagt á fyrir hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins. Gjaldið er lagt á fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skip dvelur á tollsvæði ríkisins.
Skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum greiða gistináttaskatt áfram, en fyrirkomulag gjaldtöku breytist og verður fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring í stað hverrar gistináttaeiningar.
Virðisaukaskattur
Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns- eða vetnisbifhjól, létt bifhjól sem knúin eru rafmagni og reiðhjól er fallin úr gildi.
Búvörulög
Framlenging var gerð út árið 2025 á tímabili sem afmarkar lægri innflutningstolla á ákveðnar tegundir grænmetis.
Olíugjald og kolefnisgjald
Hækkun varð á olíugjaldi á gas-, dísil og steinolíu, sem nothæf er sem eldsneyti á ökutæki.
Hækkun varð á kolefnisgjaldi á jarðefnaeldsneyti, þ.e. á gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas eða annað loftkennt kolvatnsefni.
Úrvinnslugjald
Ýmsar breytingar voru gerðar á úrvinnslugjaldi.
Álagt úrvinnslugjaldi hækkar á:
- Umbúðir úr pappa og pappír.
- Umbúðir úr viði.
- Smurolíur.
Álagt úrvinnslugjald lækkar á:
- Heyrúlluplast.
- Lífræn leysiefni.
- Ísócýanöt og pólyúretön.
- Málning.
- Prentliti.
- Færanlegar rafhlöður og rafgeyma undir 5 kg.
- Rafhlöður og rafgeyma fyrir vélknúin ökutæki.
- Iðnaðarrafhlöður og iðnaðarrafgeyma.
- Lítil raf- og rafeindatæki.
- Kælitæki.
- Skjái.
Nýmæli er að úrvinnslugjald er nú lagt á sólarsellur.
Gjaldi af áfengi og tóbaki
Hækkun varð á gjaldi af áfengi og tóbaki.
Nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur
Nýtt gjald lagt á nikótínvörur, sem eru innfluttar eða framleiddar hér á landi, breytilegt eftir styrkleika nikótíns. Einnig er nýtt gjald lagt á rafrettuvökva, með eða án nikótíns, breytilegt eftir styrkleika nikótíns, sem eru innfluttir eða framleiddir hér á landi.
Gjald fyrir einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur
Hækkun var gerð á skilagjaldi á innfluttar drykkjarvörur i einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni.
Tollskrá
Gerð var breyting á tollskrá, m.a. vegna nýrra gjalda á nikótínvörur.
Sjá má nánar um upphæðir einstakra gjalda sem hafa breyst í tilkynningu til hugbúnaðarhúsa á vef Skattsins.
Lög og auglýsingar
Þessar breytingar eru í tengslum við breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025.
Lög 127/2024 um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025
Lög 102/2023 um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (gistináttaskattur, áfengisgjald o.fl.)
Lög 140/2024 um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. (nýsköpun, virðisaukaskattur o.fl.)
Auglýsing 143/2024 um breytingu á viðauka I við tollalög nr. 88/2005