Endurskoðaðar upprunareglur PEM tóku gildi um áramótin
PEM-samkomulagið er svæðisbundið samkomulag um sameiginlegar reglur um uppruna vara sem gilda í fjölda fríverslunarsamninga milli ríkja í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu.
Frá og með 1. janúar 2026 hafa endurskoðaðar upprunareglur samkvæmt PEM-samkomulaginu tekið gildi. Endurskoðuðu reglurnar fela í sér einfaldari og sveigjanlegri skilyrði fyrir uppruna vara en eldri reglur og miða að því að auðvelda fyrirtækjum að nýta tollfríðindi samkvæmt fríverslunarsamningum.
Helstu breytingar eru meðal annars hærri vikmörk fyrir efni án uppruna, einfaldari vörutengdar upprunareglur, aukin uppsöfnun uppruna, heimild til endurgreiðslu tolla og einfaldari sönnun uppruna. Þar á meðal fellur EUR-MED-upprunavottorðið brott og gildistími sönnunargagna um uppruna lengist.
Breytingarnar hafa áhrif á uppsöfnun, rétt til tollfríðinda og notkun upprunavottorða, þar á meðal EUR.1 og upprunayfirlýsinga. Fyrirtækjum sem stunda inn- og útflutning er bent á að kynna sér hvaða reglur gilda um viðkomandi fríverslunarsamning.
