Listamenn og VSK – reglur um sölu listamanna á listaverkum, nytjalist o.fl.

15.9.2025

Ríkisskattstjóri hefur gefið út ákvarðandi bréf nr. 3/2025 þar sem áréttaðar eru þær reglur sem gilda um meðferð virðisaukaskatts vegna sölu listaverka, endurgerða þeirra, nytjalistar o.fl.

Skattskyld listaverk

Listaverk eins og málverk, teikningar, höggmyndir og frumprent eru almennt virðisaukaskattsskyld. Listamenn geta þó verið undanþegnir þegar þeir selja eigin frumverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701–9703. Sama gildir þegar uppboðshaldari selur slík verk á uppboði.

Dæmi um skattskyld listaverk;

  • Fjöldaframleiddar endurgerðir listaverka
  • Prentuð listaverk og ljósmyndir
  • Nytja- og skrautmunir sem líkjast verslunarvöru, t.d. skálar, kertastjakar, textílvörur o.fl.

Þá er sala listamanna á afritum eigin verka (t.d. veggspjöld) einnig virðisaukaskattsskyld, jafnvel þótt þau séu númeruð, undirrituð eða framleidd í litlu upplagi.

Skylda til skráningar

Listamenn sem selja verk sem ekki falla undir undanþágurnar þurfa að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og innheimta virðisaukaskatt samkvæmt almennum reglum. Við skráningu öðlast þeir jafnframt rétt til færslu innskatts af aðföngum sem kemur til frádráttar frá útskatti við uppgjör virðisaukaskatts.

Aðilar undanþegnir skráningarskyldu

Þau sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju tólf mánaða tímabili frá því að starfsemin hefst.

Ákvarðandi bréf 3/2025

Lesa ákvarðandi bréf 3/2025 um virðisaukaskattur og sölu listamanna á listaverkum, nytjalist o.fl.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum