Fréttir og tilkynningar


Ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á þeim lögaðilum sem ekki hafa skráð raunverulega eigendur

14.2.2023

Ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á 870 lögaðilum fyrir héraðsdómi sem bar að skrá raunverulega eigendur og hafa ekki sinnt skráningarskyldu sinni.

Tilkynning um þá lögaðila sem ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á fyrir héraðsdómi var birt í Lögbirtingablaðinu þann 14. febrúar 2023, sjá meðfylgjandi tilkynningu. Sinni þeir lögaðilar sem þar eru taldir upp ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningarinnar, þ.e. í síðasta lagi 14. mars 2023, mun ríkisskattstjóri krefjast skipta eða slita á þeim fyrir héraðsdómi. Þau sem eru í forsvari fyrir þessi félög geta skráð raunverulega eigendur fram að dómsúrskurði og er ríkisskattstjóra þá heimilt að afturkalla kröfu um slit eða skipti.

Listi yfir félög sem krafist er skipta eða slita á

Ríkisskattstjóri hefur sent beiðni til allra innlendra fjármálafyrirtækja um að innlánsreikningum, greiðslureikningum og vörslureikningum, hverju nafni sem nefnast, í eigu þessara lögaðila verði læst. Læsingu reikninga verður ekki aflétt nema að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra til fjármálafyrirtækja um að félagið hafi fullnægt skráningarskyldu sinni skv. lögunum eða að fenginni staðfestingu ríkisskattstjóra til fjármálafyrirtækja um að félagið hafi verið tekið til slita eða skipta með endanlegum dómsúrskurði.

Vakin er athygli á að fyrrnefndum lögaðilum er óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum sínum eða stofna til skuldbindinga á hendur sér nema telja megi ráðstöfun nauðsynlega til að forða þeim eða kröfuhöfum þeirra frá verulegu tjóni enda veiti ríkisskattstjóri leyfi til ráðstöfunar hverju sinni. Brjóti aðili gegn því er ríkisskattstjóra heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem ber ábyrgð á brotinu.

Hjá þeim félögum sem ríkisskattstjóri hefur tekið ákvörðun um að krefjast skipta á hefur verið sett athugasemd í fyrirtækjaskrá um að félaginu sé óheimilt að ráðstafa eignum og réttindum sínum eða stofna til skuldbindinga á hendur sér.

Leiðbeiningar um skráningu raunverulegra eigenda og móttöku gagna

Skráning rafrænt

Skráður stjórnarmaður, prókúruhafi, framkvæmdastjóri, endurskoðandi eða skoðunarmaður félagsins skrá sig inn á þjónustuvef Skattsins með sínum persónulegu rafrænu skilríkjum.

Eftir innskráningu skal smella á „Félög sem ég tengist“.

Á þjónustuvefnum er hægt að skrá og breyta raunverulegum eigendum félagsins og hlaða inn fylgigögnum.

Skráning á pappír

Séu forsvarsmenn félags ekki með rafræn skilríki er hægt að senda útfyllt eyðublað, RSK 17.27 eða RSK 17.28 (félagasamtök og sambærilegir aðilar).

Útfyllt eyðublöð ásamt fylgigögnum má senda eða afhenda í afgreiðslu Skattsins, Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík eða senda skannað eintak á fyrirtaekjaskra@skatturinn.is.

Ef gögnin eru send í læstu skjali er óskað eftir að lykilorð sé sent í öðrum tölvupósti.

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar um skráningu raunverulegra eigenda er að finna á heimasíðu Skattsins.

Skráning raunverulegra eigenda

Skráning raunverulegra eigenda fyrir félagasamtök


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum