Skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum eru VSK-skyld

3.9.2025

Ríkisskattstjóri vekur athygli á ákvarðandi bréfi nr. 2/2025 er varðar virðisaukaskattsskyldu rekstraraðila skemmtiferðaskipa vegna starfsemi þeirra við innanlandssiglingar við Ísland.

Rekstraraðilar skemmtiferðaskipa sem sigla innanlands við Ísland þurfa að skrá sig hjá Skattinum og innheimta virðisaukaskatt (VSK) af þjónustu sem veitt er í innanlandssiglingum. Þetta á við um bæði innlenda og erlenda rekstraraðila.

Að gefnu tilefni hefur verið gefið út ákvarðandi bréf 2/2025. Bréfið er einnig aðgengilegt á ensku.

Skilgreining á innanlandssiglingum

Með skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum er átt við skemmtiferðaskip sem tekur farþega um borð hér á landi, siglir með þá á milli hafna hér á landi (venjulega í kringum landið) og skilar þeim síðan aftur í land hér á landi. Farþegarnir fara ekki með skipinu til útlanda.

VSK-skylda í innanlandssiglingum

Rekstraraðilar þurfa að innheimta virðisaukaskatt af allri sölu á vöru og þjónustu sem veitt er í innanlandssiglingum, þar á meðal:

  • fólksflutningum

  • gistiþjónustu

  • sölu á mat og drykk

  • þjónustu eins og heilsulindum, afþreyingu og dagsferðum

  • sölu á vörum um borð

Listinn er ekki tæmandi.

Erlendir rekstraraðilar

Erlendir rekstraraðilar sem ekki hafa fasta starfsstöð hér á landi þurfa að tilnefna umboðsmann með heimilisfesti á Íslandi. Umboðsmaðurinn skráir starfsemina fyrir hönd rekstraraðilans, rekstraraðilinn og umboðsmaður bera sameiginlega ábyrgð á skilum og greiðslu VSK.

Skráning á VSK-skrá

Sé sótt um afturvirka skráningu þarf einnig að senda inn VSK-skýrslur á eyðublaði RSK 10.01 fyrir gjaldfallin uppgjörstímabil.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum