Fréttir og tilkynningar


Virðisaukaskattur af viðburðum í streymi

1.12.2020

Ríkisskattstjóri hefur gefið út sérstakt álit í tilefni fyrirspurna sem borist höfðu um hvort skylt sé að innheimta virðisaukaskatt við sölu aðgangs að t.d. tónleikum eða leiksýningum sem streymt er beint í sjónvarp, tölvu, síma eða annað snjalltæki kaupanda.

Lesa ákvarðandi bréf í heild sinni

Í álitinu kemur fram að streymisþjónusta sé almennt virðisaukaskattsskyld hérlendis jafnt sem erlendis. Einnig kemur fram að hérlendis sé aðgangseyrir að tónleikum, leiksýningum, listdanssýningum og leikhúsum undanþeginn virðisaukaskatti. Í álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að þegar seldur er sérstaklega aðgangur að tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum sem streymt er beint, þ.e. í rauntíma“, geti slík sala talist undanþegin virðisaukaskatti. 

Á hinn bóginn teldist sala aðgangs að upptökum af þessum viðburðum virðisaukaskattsskyld. Tekið skal fram að það á t.a.m. við um aðgengi að viðburði um streymi í ákveðinn tíma eftir að honum lýkur eða gegnum svokallað tímaflakk, enda er í slíkum tilvikum ekki um að ræða viðburð sem streymt er beint, þ.e. í rauntíma.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum