Fréttir og tilkynningar


Aðgerðir gegn mafíustarfsemi

21.5.2010

Í morgun fóru fram aðgerðir gegn glæpastarfsemi á tugum staða í 7 löndum. Fjöldi einstaklinga var handtekinn og mikil verðmæti haldlögð. 

Um er að ræða skipulagða dreifingu falsaðra vörumerkja, aðallega frá Kína, inn á ESB og EES markaði. Í framhaldinu hefur fjárhagslegur ávinningur verið þvættaður en hann tengist síðan öðrum tegundum skipulagðra brota. Á bak við glæpastarfsemina stendur Camorra mafían sem hefur bækistöðvar í Napolí á Ítalíu.

Aðgerðin byggist á fjölþjóðlegri rannsókn sem staðið hefur yfir síðastliðin tvö ár. Samræming rannsóknarinnar var hjá Europol en samræming ákæru- og saksóknarþátta var hjá Eurojust.

Starfsmenn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og Tollgæslunnar komu að þeim þætti málsins sem snéri að viðskiptum á Íslandi og fjármagnsflutningum frá landinu. Þeir fengu aðstoð frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu, Lögreglunni á Suðurnesjum, Lögreglunni á Akureyri, alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra og hugsanlega fleirum. Rannsóknin á Íslandi beindist að vöruinnflutningi á vegum erlenda aðila, sem tilheyra Camorra og kortlagningu á aðferðafræði þeirra hér á landi. Tengiliður Íslands hjá Europol hafði mikla aðkomu að lausn þessa máls. Enginn Íslendingur er sakborningur. Ekki var gripið inn í málið á Íslandi en mikilvægum upplýsingum safnað sem meðal annars leiddu til þess að unnt var að finna fyrirtæki á Ítalíu, sem gegndu meginhlutverki í heildarmálinu.

Europol hefur komið á framfæri þakklæti til samstarfsaðila á Íslandi fyrir samvinnuna og mikilvægt framlag til rannsóknar málsins.

Sjá nánar í sameiginlegri fréttatilkynningu Europol og Eurojust sem gefin var út í morgun.

Tollstjóri veitir ekki frekari upplýsingar.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum