Fréttir og tilkynningar


Breyttir gjalddagar aðflutningsgjalda

8.7.2010

Áríðandi tilkynning til innflytjenda og tollmiðlara um breytta gjalddaga vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum við tollafgreiðslu innfluttra vara á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2010.

Með lögum frá Alþingi, samþykkt 9. mars 2010, hefur verið veittur lengri gjaldfrestur á þeim aðflutningsgjöldum, sem skuldfærð voru við tollafgreiðslu á uppgjörstímabilinu 1. janúar til 28. febrúar 2010 og sem skuldfærð verða við tollafgreiðslu á uppgjörstímabilinu 1. mars til 30. apríl 2010. Um er að ræða tímabundnar breytingar sem gilda aðeins fyrir framangreind tímabil, en að þeim loknum taka gildi fyrri reglur. Breytingarnar gilda um eftirfarandi tilvik:

Almennur greiðslufrestur (TA B)

Uppgjörstímabil janúar-febrúar 2010. Gjalddagi átti að vera 15. mars 2010, en aðflutningsgjöld skulu nú skiptast til helminga á tvo gjalddaga: 15. mars og 15. apríl 2010.

Uppgjörstímabil mars-apríl 2010. Gjalddagi átti að vera 15. maí 2010, en aðflutningsgjöld skulu nú skiptast til helminga á tvo gjalddaga: 15. maí og 15. júní 2010.

Vörugjald skráðra vörugjaldsaðila (XA, XB, XC, XD, XE vörugjöld) (VI E)

Uppgjörstímabil janúar-febrúar 2010. Gjalddagi átti að vera 28. apríl 2010, en skuldfærð vörugjöld skulu nú skiptast til helminga á tvo gjalddaga: 28. apríl og 28. maí 2010.

Uppgjörstímabil mars-apríl 2010. Gjalddagi átti að vera 28. júní 2010, en skuldfærð vörugjöld skulu nú skiptast til helminga á tvo gjalddaga: 28. júní og 28. júlí 2010.

Til athugunar og upplýsinga

Gjalddagar skuldfærðra aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu vörusendingar koma fram á reikningi yfir aðflutningsgjöld frá gjaldkera Tollstjóra og ennfremur í samsvarandi gögnum við rafræna tollafgreiðslu; skuldfærslutilkynningu við EDI/SMT-tollafgreiðslu (CUSTAR-skeyti) og á vefsíðu skuldfærslutilkynningar á vef VEF-tollafgreiðslu þegar það á við. Ekki verða gerðar breytingar á þessum gögnum og munu þau því sýna gjalddaga miðað við fyrri reglur allt tímabilið, 1. janúar til 30. apríl 2010, en ekki þessar tímabundnu reglur. Ennfremur verða ekki gerðar breytingar upplýsingaveitu á vefnum um tollafgreiðslu, Tollalínunni, t.d. skuldfærslulistum. Gíróseðlar, sem sendir verða gjaldendum vegna innheimtu Tollstjóra á skuldfærðum aðflutningsgjöldum, munu endurspegla þá breyttu gjalddaga sem nefndir eru í þessu bréfi.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum