Fréttir og tilkynningar


Ekki sakaður um ásetning né gáleysi við skil framtala sinna

12.1.2021

Maður var ákærður fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2014 og 2015, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram tekjur að fjárhæð 20,7 milljónir króna í formi úttekta úr félagi sem var í hans eigu.

Hafi hann þannig komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð 8,2 milljónir króna. Jafnframt var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning af brotunum í eigin þágu. Bú félagsins í hans eigu hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafði skiptastjóri þess sent ákærða bréf og krafið hann um að endurgreiða þrotabúinu um 40 milljónir króna. Fyrir dómi hélt ákærði því fram að ástæða þess að tekjurnar sem hann taldi sig hafa haft gjaldárin 2014 og 2015 og hann taldi ekki fram á beiðni um leiðréttingu skattframtala þessi ár vera sú, að um væri að ræða sömu fjármuni og skiptastjóri þrotabúsins krafði hann um og að búið hefði verið að afturkalla laun hans hjá þrotabúinu tvö ár aftur í tímann. Taldi hann að fjármunirnir gætu ekki bæði verið laun og á sama tíma skuld hans við þrotabúið og neitaði þannig því að hafa af ásetningi eða stórfelldu gáleysi að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum eins og honum var gefið að sök. Ákærði hafði sætt áætlun umrædd ár og sætt sig við þær en í kjölfar rannsóknar óskað eftir að framtöl sín yrðu leiðrétt. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að framburður hans væri trúverðugur og fengi stoð í öðrum gögnum málsins en hann hefði frá upphafi borið efnislega á sama veg og að hann hefði alltaf talið fjármunina sem um ræddi hafa verið laun og undi áætlunum í samræmi við það. Það væri því mat dómsins, að hann hefði verið í góðri trú um að honum bæri ekki við þær aðstæður sem uppi væru að telja fjármunina sem um ræðir fram til skatts sem laun þar sem hann taldi laun sín hjá félaginu hafa verið afturkölluð tvö ár aftur í tímann og hann var á sama tíma krafinn um endurgreiðslu sömu fjármuna. Saknæmisskilyrði voru því ekki uppfyllt og var ákærði sýknaður.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum