Fréttir og tilkynningar


Úrskurður yfirskattanefndar: Hagnaður af sölu verkfæra taldist ekki til tekna af atvinnurekstri

29.3.2021

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 40/2021 var endurákvörðun ríkisskattstjóra í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda staðfest að hluta.

Það sem um var deilt var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að líta á greiðslur tveggja félaga til kæranda vegna sölu verkfæra sem tekjur af atvinnurekstri. Ríkisskattstjóri ályktaði að kærandi hefði starfað á eigin vegum við húsaviðgerðir og því væri um að ræða tekjur sem skattskyldar væru skv. B. lið 7. gr. tekjuskattslaga. Kærandi krafðist þess að litið yrði á tekjurnar sem tekjur af sölu lausafjármuna sem undanþegnar væru skattskyldu, sbr. 2. mgr. 16. gr. tekjuskattslaga. Að mati yfirskattanefndar hefði legið fyrir ríkisskattstjóra að skera úr um hvort að hugsanlegur söluhagnaður vegna umræddra viðskipta félli undir skattfrelsisákvæði 2. mgr. 16. gr. laga um tekjuskatt eða 1. mgr. sömu lagagreinar um söluhagnað lausafjár sem ekki væri heimilt að fyrna. Þetta hefði ekki verið gert og hefði ríkisskattstjóri ekki leyst úr þeim ágreiningi um það hvort hinn meinti söluhagnaður hefði fallið undir skattskyldu skv. 1. mgr. eða 2. mgr. 16. gr. laganna. Með vísan til þess bar að fella ákvörðun ríkisskattstjóra um þetta kæruatriði úr gildi. Að öðru leyti var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurður yfirskattanefndar


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum