Fréttir og tilkynningar


Viðspyrnustyrkir – opið fyrir umsóknir

2.3.2021

Móttaka á umsóknum um viðspyrnustyrki er hafin. Viðspyrnustyrkir eru ætlaðir þeim rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Sótt er um á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is fyrir einn mánuð í senn og þarf tekjufallið að nema a.m.k. 60% í hverjum almanaksmánuði fyrir sig á tímabilinu nóvember 2020 til og með maí 2021 að uppfylltum ýmsum öðrum skilyrðum.

Um þá gilda lög 160/2020, um viðspyrnustyrki. Markmið þeirra er að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Ljúka þarf umsókn fyrir hvern mánuð áður en hafist er handa um að sækja um fyrir næsta mánuð. Þannig þarf t.d. að fullklára umsókn fyrir nóvember 2020 með rafrænni undirskrift áður en sótt er um fyrir desember 2020, og svo koll af kolli. Ef umsækjandi um viðspyrnustyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér ítarlegar leiðbeiningar á vefsíðu Skattsins.

Skoða leiðbeiningar

Umsóknir um viðspyrnustyrk þurfa að berast eigi síðar en 30. júní 2021.  


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum