Breyting á reglum um bifreiðahlunnindi
Breyting hefur orðið á útreikningsreglum vegna bifreiðahlunninda þegar um ræðir bifreiðar sem knúnar eru með rafmagni, vetni eða metan.
Frá og með 1. júlí sl. skulu bifreiðahlunnindi af bifreiðum sem knúnar eru með rafmagni, vetni eða metan reiknast á ársgrundvelli sem 20% af upphaflegu kaupverði bifreiðarinnar samkvæmt eignaskrá launagreiðanda eða þess sem innir hlunnindin af hendi, í stað 25% sem gilti á tímabilinu 1. janúar til og með 30. júní 2024.
Styrk frá Orkusjóði má draga frá stofnverði
Athygli er vakin á því að ef fenginn hefur verið
styrkur til kaupa á viðkomandi bifreið er það meginregla að við ákvörðun á
stofnverði til eignfærslu skuli miða við kaupverð ásamt öllum kostnaði sem á
eignina fellur í tengslum við kaupin, t.d. breytingar á bifreið, en draga frá
m.a. óendurkræfa styrki. Á þetta meðal annars við ef keypt er rafbifreið og hluti
kaupverðs er greiddur með styrk frá Orkusjóði. Í slíkum tilvikum skal
útreikningur bifreiðahlunninda miðast við kaupverðið að frádregnum styrknum,
sbr. nánari reglur þar um í skattmatsreglum.
Lægra hlutfall ef rekstrarkostnaður er ekki greiddur af launagreiðanda
Breyting er einnig á því hlutfalli sem skal miða útreikning á bifreiðahlunnindum við ef sá sem nýtur hlunnindanna greiðir sjálfur rekstrarkostnað bifreiðarinnar, þ.e. ef um er að ræða bifreið sem knúin er rafmagni, vetni eða metan. Hlutfall hlunninda skal lækka um þrjú prósent af verði bifreiðarinnar og verður því 17% í þeim tilvikum að sá sem nýtur greiðir rekstrarkostnað hennar.
Rétt er að taka fram að útreikningshlutföllin eru miðuð við að með rekstrarkostnaði í þessu sambandi sé hvorki átt við kílómetragjald né bifreiðagjald heldur almennt daglegan rekstur, þ.m.t. orku.
Ef sá sem nýtur bifreiðahlunninda hleður á eigin kostnað rafbifreið sem hann hefur til umráða er heimilt að miða útreikning á hlunnindunum við 19% af kaupverði bifreiðarinnar frá og með 1. júlí sl. í stað 24% á fyrri hluta ársins 2024.