Fréttir og tilkynningar


Dagpeningareglur - árétting

Reglur um dagpeninga og frádráttarbærni þeirra

14.6.2015

Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu 10. júní 2015 er fjallað um greiðslur dagpeninga og frádráttarbærni þeirra. Í grein þessari er ekki farið rétt með reglur um dagpeningagreiðslur og forsendur þeirra. Af því tilefni eru nokkrar meginreglur hvað þetta efni varðar áréttaðar:

Til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast m.a. ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, þ.m.t. dagpeningar. Í 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 30. gr. laganna er kveðið á um að frá tekjum manna sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, megi draga útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað sé að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og séu í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Í 118. gr. laganna er síðan kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli, að fenginni staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þurfi til verðs samkvæmt lögunum. Ríkisskattstjóri getur þannig ekki gefið út skattmatsreglur einhliða.

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 118. gr. og að fenginni staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið gefið út skattmat fyrir tekjuárið 2015, sbr. auglýsingu nr. 1173/2014 í B-deild Stjórnartíðinda. Í kafla 3.2 er fjallað um reglur sem gilda um frádrátt á móti fengnum dagpeningum. Þar kemur m.a. fram að frádráttur á móti dagpeningum sé heimill, enda hafi dagpeningarnir verið greiddir vegna tilfallandi ferða í þágu starfsemi launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og launþeginn sannanlega nýtt móttekna dagpeninga til greiðslu gistingar samkvæmt reikningi og fæði og annan ferðatengdan kostnað, svo sem fargjöld að og frá flugvöllum. Frádrátturinn er jafnframt háður því skilyrði að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launþega, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga ásamt fleiri tilheyrandi upplýsingum. Ef launþegi á hinn bóginn fær greidda dagpeninga frá lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu þurfa jafnframt ætíð að liggja fyrir reikningar um kostnað vegna ferðalaga í þágu launagreiðandans. Frádráttur á móti dagpeningum í þeim tilvikum getur ekki orðið hærri en þeim útlagða kostnaði nemur og sem rúmast innan hámarksfrádráttar dagpeninga á dag og sem sannað er að sé ferðakostnaður í þágu launagreiðandans.

Samkvæmt framansögðu er frádráttur á móti dagpeningum í öllum tilvikum háður því að sannanlega sé um að ræða greiðslu launagreiðanda til að mæta útlögðum kostnaði launþega vegna ferðalaga sem eru í þágu atvinnustarfsemi launagreiðanda. Launþegi þarf því ætíð auk annarra skilyrða, að hafa greitt fyrir gistingu ásamt öðrum ferðatengdum kostnaði, þannig að skilyrði frádráttar séu til staðar. Séu skilyrðin uppfyllt þarf almennt ekki að leggja fram gögn um kostnað heldur er heimilt að byggja frádrátt á þeim fjárhæðum sem ákvarðaðar eru árlega í skattmati. Engu að síður þarf launþegi að geta sýnt fram á, sé þess óskað, að til hafi fallið kostnaður sem er frádráttarbær.

Grundvöllur skattmats um frádrátt vegna dagpeninga er ákvörðun ferðakostnaðarnefndar hverju sinni. Í framtalsleiðbeiningum vegna skattframtals einstaklinga hefur verið tekið fram að á móti fengnum dagpeningum sé heimilt að færa til frádráttar ferða- og dvalarkostnað sem launþegi hafi sannanlega greitt vegna ferða á vegum launagreiðanda. Er þannig gert ráð fyrir því að launþegi geti lagt fram gögn til sönnunar á ferðakostnaði í þágu launagreiðanda og að öðrum kosti gilda ekki frádráttarreglur á móti fengnum dagpeningum. 

Skattmatsreglur þær sem um ræðir eru settar í samræmi við 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með áorðnum breytingum. Eru þær einfaldar, hlutlægar og gagnsæjar, settar með heildstæðum hætti og er ætlað að taka til mats á tekjum og frádráttarliðum þeirra sem eins er ástatt hjá. Þannig er eðlilega gerður greinarmunur á milli þess hvort um sé að ræða almenna launþega eða sjálfstætt starfandi menn, sem sanna verða frádrátt umfram 30% af öðrum kostnaði en gistingu með fylgiskjölum vegna útgjalda á ferðalögum í þágu starfsemi sinnar eins og gildir um allan almennan rekstrarkostnað, sbr. c. lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Áðurgreind reglugerð frá árinu 1994 skerpti mjög á þeim hlutlægu reglum sem um mál þessi gilda. Með hliðsjón af því að ráðandi einstaklingar í rekstri sem rekinn er í félagaformi hafa almennt möguleika á því að hafa áhrif á það hvernig fjármunum rekstrarins er ráðstafað eru ríkari kröfur settar um sönnun fyrir frádrætti á móti dagpeningagreiðslum sem ætlað er að mæta sannanlega útlögðum kostnaði. Reglur þessar um aukna sönnunarbyrði taka þannig til allra ráðandi aðila, þótt einkum megi færa rök fyrir því að slíkt eigi fremur við um fámennis einkahlutafélög, þar sem eigandinn vinnur einn eða eftir atvikum með einum eða fáum aðstoðarmönnum. Í þessu samhengi verður jafnframt að horfa til þess að sú regla hefur gilt svo árum og áratugum skiptir að hægt sé að sanna að fallið hafi til ferðakostnaður á móti fengnum dagpeningum.

Reykjavík 12. júní 2015 
Ríkisskattstjóri 
 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum