Fréttir og tilkynningar


Framkvæmd laga um vörugjald (sykurskattur)

6.2.2013

Þann 22. desember 2012 samþykkti Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

Breytingarnar eru tvíþættar, annarsvegar að færa framkvæmd laga um vörugjald alfarið til Tollstjóra og hinsvegar að breyta samsetningu vörugjalda á sykurvörur til að færa neyslu matvæla í átt til aukinnar hollustu. Þess má geta að það eru aðeins innlend vörugjöld sem falla undir áðurnefnd lög um vörugjald sem færast yfir til Tollstjóra en ekki t.d. vörugjöld vegna innlendrar framleiðslu áfengis. Vörugjöld á matvæli eru lögð á sem mishátt gjald á hvert kílógramm nema þegar um er að ræða drykkjarvörur, þar er gjaldið sama krónutala á hvern lítra af framleiddri vöru en verður mismunandi krónutala á hvern lítra við breytingarnar 1. mars. Þeir innlendu framleiðendur, sem framleiða vörugjaldsskylda vöru og skrá sig hjá Tollstjóra, fá útgefin svokölluð vörugjaldsskírteini og fá á grundvelli þeirra vörugjöld af aðföngum sínum endurgreidd. Þær breytingar sem samþykktar voru fela í sér að nú hafa innflytjendur og framleiðendur val um skil á vörugjaldi, þ.e. með álagningu samkvæmt tollflokkun eða að álagningin sé byggð á sykur- eða sætuinnihaldi.

Nýtt fyrirkomulag er útskýrt nánar hér að neðan.

Tollflokkun og álagning á matvæli

Álagning vörugjalda á matvæli eru frá 15 krónum á kr/kg upp í 42.000 kr./kg. Álagning miðað við lítra er frá 11 kr. á lítra upp í 800 kr. á lítra. Hér á eftir er útskýrður sá munur sem nú verður á hverjum álagningaflokki fyrir sig, eftir því hvor leiðin er valin.

Hæst vörugjald ber tollskrárnúmerið 2106.9021, svokallaðir vatnssneyddir kjarnar. Gjaldið er 800 kr. á kg en allt innheimt gjald er endurgreitt enda er þetta efni notað í vörugjaldsskylda framleiðslu. Þessu númeri hefur verið skipt í þrennt: án sykurs eða sætuefna, með sykri og með sætuefnum.

Næsthæsta vörugjaldið er 160 kr. á kíló. Í flokknum eru ýmis drykkjarvöruefni en innflutningur er lítill, mestur á próteindrykkjarvöruefnum. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs verður vörugjaldið því hærra sem sykurinnihaldið er meira. Ef það er meira en 75% verður gjaldið hærra en það var, en annars lægra.

Flokkur sem ber 130 kr. vörugjald á kíló er að mestu leyti vörur sem innihalda kakó, gjarnan til að gera drykki. Einnig er í flokknum núggatmassi. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs verður vörugjaldið hærri en áður var ef sykurinnihaldið er yfir 62% en annars munu vörugjöld í þessum flokki lækka frá því sem áður var. Vörur í þessum flokki eru með mjög mishátt hlutfall af viðbættum sykri, allt frá 40% til 90%.

Í flokknum sem ber 120 kr. vörugjald eru sætindi sem ekki eru með kakóinnihaldi. Einnig er þarna að finna möndlumassa. Vörugjald á vörur í þessum flokki er nú í réttu hlutfalli við viðbættan sykur eins og gildir um önnur matvæli. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs hækkar gjaldið frá því sem áður var ef sykurinnihaldið er yfir 52% en lækkar annars. Mikill hluti af vörum í þessum flokki er nær hreinn sykur en t.d. lakkrís og karamellur eru með mun lægra hlutfall af viðbættum sykri en aðrar vörur innan flokksins.

Súkkulaði og önnur matvæli sem innihalda kakó bera 100 kr. vörugjald. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs hækkar gjaldið í þessum flokki frá því sem var ef sykurinnihald vörunnar er yfir 48% en annars lækkar það. Margar tegundir af vörum í þessum flokki eru með lægra hlutfall sykurs en 50%.

Þær vörur sem bera 80 kr. vörugjald eru kex og sætabrauð ýmiss konar. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs munu þær vörur sem innihalda yfir 38% af sykri nú bera hærra vörugjald en þær gerðu en flestar tegundir eru með töluvert minna sykurinnihald en það. Algengt er að hlutur sykurs í þessum vörum sé um 10% og vörugjald á þessar vörur mun því lækka frá því sem nú er.

Vörur sem bera 60 kr. vörugjald á kíló voru fluttar inn fyrir 1,5 milljarða kr. árið 2011. Hér undir fellur alls konar sykur svo sem strásykur, molasykur, púðursykur, síróp og fleira. Þessar vörur eru undantekningarlítið hreinn sykur og munu því bera vörugjald að fullu. Það mun hækka frá því sem áður var um 150 kr. á hvert kíló.

Lagt er 50 kr. gjald á hvert kíló af ýmiss konar búðingsdufti og öðrum vörum. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs hækkar gjaldið ef sykurinnihaldið er yfir 24% og það á við um margar tegundir í flokknum.

Sykurlaust kakóduft ber 30 kr. vörugjald á kíló og hið sama á við um fleiri vörur sem innihalda mjólkurafurðir og ætlaðar eru til að framleiða drykkjarvörur. Algengt sykurinnihald í vörum í þessum flokkum er 30%. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs verður gjaldið hærra en það var ef innihaldið er meira en 14%.

Á ávaxtasúpur og grauta og grænmeti sem er varið fyrir skemmdum með sykri er lagt 24 kr. vörugjald á hvert kíló. Sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs mun gjald á vörur í þessum flokki hækka ef sykurinnihaldið er meira en 11% en algengt er að það sé nálægt 15%. Sumar vörur í flokknum geta verið með meira sykurinnihald en það.

Vörugjald á hvers kyns drykkjarvörur og ís er 16 kr. á hvern lítra. Í lögunum er gert ráð fyrir að gjaldið verði byggt á hlutfalli sykurs þar sem hann er settur í og þar sem sætuefni eru notuð í stað sykurs verði miðað við sama hlutfall og ef um sykur væri að ræða. Efnin gefa margfalt sætubragð miðað við sykur og því óhægt um vik að leggja gjald á þau eftir þyngd. Í venjulegum gosdrykkjum er sykurmagn um 10% og sé valið að fara eftir álagningu viðbætts sykurs mun nýtt vörugjald verða hærra en það sem fyrir var ef sykurmagnið er yfir 8%.

Við bætast nokkrar vörutegundir sem ekki bera vörugjald í dag með breytingunum og eru þar mikilvægastar ýmsar mjólkurafurðir og morgunverðarkorn.

Kerfisbreyting

Í lögunum er jafnframt að finna breytt fyrirkomulag á því hvernig innlendum framleiðendum og innflytjendum matvæla er gert mögulegt að haga skilum sínum á vörugjaldi. Hefur hvor um sig tvær leiðir til að velja um.

Innlendir framleiðendur

Innlendum framleiðendum er annars vegar gert kleift að skila ekki vörugjaldi af vörum sínum heldur kaupa einfaldlega aðföng til framleiðslunnar, þ.e. sykur eða sætuefni með vörugjöldum, sem ekki fæst niðurfellt eða endurgreitt. Þannig losnar framleiðandi við skýrsluskil og annað utanumhald. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag nýtist mörgum innlendum framleiðendum. Nýti framleiðendur sér þessa leið greiða þeir vörugjald í samræmi við raunverulegt sykurinnihald framleiðsluvörunnar. Í frumvarpinu er hins vegar jafnframt gert ráð fyrir að framleiðendur geti nýtt sér áfram það fyrirkomulag sem er á skilum á vörugjaldi í dag ef þeir svo kjósa. Það fyrirkomulag felur í sér að framleiðandi sækir um heimild til þess að geta keypt vörugjaldsskyldar vörur án vörugjalds gegn því að vörugjaldi sé skilað af hinni endanlegu framleiðsluvöru í samræmi við tollflokkun hennar. Er þetta gert til þess að tryggja að innlendir framleiðendur lendi ekki í verri stöðu en innflytjendur vegna greiðslu vörugjalds.

Innflytjendur

Innflytjendur hafa jafnframt tvo kosti við skil á vörugjaldi af matvælum við innflutning. Innflytjanda er þannig annars vegar gert kleift að skila vörugjaldi í samræmi við tollflokkun vörunnar og í samræmi við það gjald sem lagt er á tollskrárnúmerið. Það gjald tekur mið af áætluðu sykurinnihaldi vörunnar. Innflytjanda er hins vegar jafnframt gert mögulegt að skila vörugjaldi í samræmi við hlutfall viðbætts sykurs í vörunni geti hann framvísað innihaldslýsingu frá framleiðanda vörunnar þar sem magn viðbætts sykurs er tiltekið. Er þetta gert til að tryggja að innflytjendur lendi ekki í verri stöðu en innlendir framleiðendur vegna greiðslu vörugjalds. Er því báðum aðilum, innlendum framleiðendum og innflytjendum, gert kleift að skila vörugjaldi í samræmi við raunverulegt hlutfall viðbætts sykurs í vörunni.

Hvað tekur við 1. mars 2013?

Framkvæmd laganna flyst alfarið frá Ríkisskattstjóra til Tollstjóra þann 1. mars 2013. Í því felst að útgáfa vörugjaldsskírteina, endurgreiðslubeiðnir, álagning og kærur vegna álagningar gjaldsins ásamt allri umsýslu s.s. utanumhald kerfisins færist til Tollstjóra o.fl.

Innlendir framleiðendur ættu ekki að finna fyrir þessum breytingum og munu þau skírteini sem þegar eru útgefin halda sínum gildistíma. Beiðnum um endurnýjun og nýjum umsóknum um skírteini skal þó beina til Tollstjóra frá 1. mars 2013.

Tollstjóri vinnur nú að útgáfu nýrra eyðublaða í samvinnu við Ríkisskattstjóra og aðlaga kerfi embættisins að nýju verkefni. Frekari upplýsingar og leiðbeiningar verða birtar hér á vef Tollstjóra (www.tollur.is).


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum