Fréttir og tilkynningar


Lagabreytingar í júní – Brjóstamjólk, rafrettur, frammistöðubætandi efni o.fl.

3.7.2018

Tollstjóri vill vekja athygli á ýmsum lagabreytingum sem tóku gildi vikuna 25. – 29. júní en lögin voru samþykkt á Alþingi á síðustu dögum vorþings.

Með 1. gr. laga nr. 93/2018 var gerð breyting á tollalögum þess efnis að við 4. kafla tollskrár bætist nýtt tollskrárnúmer, 0401.2008, sem er fyrir móðurmjólk fyrir hvítvoðunga og er slík mjólk tollfrjáls. Lögin í heild sinni má finna hér

Lög nr. 87/2018 er fyrsta heildarlöggjöfin um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Með lögunum er m.a. skilgreint hvers konar vökvar eru leyfilegir en auk þess er innflutningur og markaðssetning bæði rafrettna og áfyllinga í þær í atvinnuskyni háðar leyfi frá Neytendastofu. Tollstjóri og Neytendastofa munu hafa frekara samráð um framkvæmd innflutnings á rafrettum og áfyllingum í þær á næstunni en lögin munu ekki formlega taka gildi fyrr en 1. mars 2019. Lögin í heild sinni má finna hér

Lög nr. 84/2018 banna sérstaklega frammistöðubætandi efni og gilda þau um vefjaaukandi stera, testósterón og afleiður þess auk samsvarandi efna með karlhormónaáhrif, vaxtarhormón, erýtrópóíetín og efni sem hafa sambærileg áhrif með því að auka magn rauðra blóðkorna í blóði umfram eðlileg gildi fyrir aldur og kyn og önnur efni sem auka myndun og losun vaxtarhormón, testósteróns og afleiðna þess eða sambærilegra efna með karlhormónaáhrif eða náttúrulegra rauðkornavaka (erýtrópóíetíns). Samkvæmt 4. gr. laganna er tollstjóra heimilt að ljúka minni háttar brotum á lögunum með fésekt, að því gefnu að brotið teljist að fullu upplýst og sakborningur fellst á slík málalok. Lögin í heild sinni má finna hér:

Með 4. gr. laga nr. 77/2018 voru gerðar tvær breytingar á 7. gr. tollalaga. Í fyrsta lagi var ákvæði bætt við 6. tl. 1. mgr. 7. gr. þess efnis að Tollstjóri skal áætla leiguverð hópferðabifreiða sem fluttar eru tímabundið til landsins miðað við 1/60 meðaltollverðs innfluttra hópbifreiða sem flokkast hafa í sama tollskrárnúmer síðastliðin þrjú ár fyrir hvern byrjaðan mánuð frá komu tækis til landsins, liggi leiguverð viðkomandi hópferðabifreiðar ekki fyrir. Í annan stað var bætt við heimild fyrir Tollstjóra til að fjarlægja skráningarmerki af ökutækjum sem uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir tímabundnum innflutningi, sbr. 2. mgr. 7. gr. tollalaga. Lögin í heild sinni má finna hér

Þá var með lögum nr. 76/2018 gerð breyting á 1. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga þess efnis að í stað þess að niðurfelling tolla á vörum frá svokölluðum GSP ríkjum taki mið af niðurfellingu á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu þá gildir GSP niðurfellingin almennt fyrir vörur sem eru upprunnar og fluttar inn frá þeim ríkjum heims sem eru skemmst á veg komin í þróun eins og þau eru skil­greind af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við skuld­bind­ingar Íslands á vettvangi þeirra. Tollfríðindin ná ekki til vöru sem fellur undir toll­skrár­númer í 2. og 4. kafla og vöruliðum nr. 0603, 1601 og 1602 í tollskrá. Lögin í heild sinni má finna hér:

Loks ber að nefna að ný persónuverndarlög taka gildi þann 15. júlí 2018 í kjölfar setningar laga nr. 90/2018 en lagasetningin mun hafa margvísleg innri áhrif á starfsemi embættisins. Lögin í heild sinni má nálgast hér

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum