Fréttir og tilkynningar


Nánar um verklag vegna geymslusvæðiskóða við farmskrárskil

19.2.2014

Tollstjóri mun gera þá kröfu að við farmskrárskil til embættisins komi ávallt fram hvar vara verði geymd, með því að þar verði vísað í geymslusvæðiskóða sem öllum geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur, sem hafa útgefið starfsleyfi frá Tollstjóra, hefur verið úthlutað.

Verður með öllu óheimilt að losa vöru úr fari nema geymslusvæðiskóðinn sé tilgreindur í farmskrá. strong>Sé geymslusvæðiskóði ekki tilgreindur verður móttöku farmskrár hafnað hjá Tollstjóra, frá og með fyrrgreindri dagsetningu. Með því að skrá viðkomandi geymslusvæðiskóða í farmskrá er farmflytjandi að tilgreina hvaða aðili beri vörsluábyrgð á vörunni, sbr. 75. gr. tollalaga, og tilgreina staðsetningu geymslusvæðisins auk þess sem þessar upplýsingar gera það að verkum að Tollstjóri getur gengið að vörunni til vöruskoðunar á því geymslusvæði sem um ræðir.

Meginreglan er varðar tilvísun í geymslusvæðiskóðann er að skrá ber þann kóða sem vísar til þess geymslusvæðis sem vara er hverju sinni. Eigi sér stað flutningur á ótollafgreiddri vöru milli viðurkenndra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur þarf að tilkynna um það til Tollstjóra, og eftir atvikum fá heimild fyrir slíkum flutning, sbr. 80. gr. tollalaga. Er það gert með því að senda breytingarskeyti þess efnis til Tollstjóra, sjá nánar CUSCAR skeyti sem sent er til að breyta farmskrá. Í þeim tilvikum sem vörsluábyrgð færist milli vörsluhafa, þurfa upphaflegi vörsluhafi vöru og viðtakandi vöru auk þess að tryggja sín á milli að vörsluábyrgð hafi flust til og þarf staðfesting að liggja fyrir hjá þeim sem tók við vörsluábyrgð að hann hafi tekið við vörunni til geymslu, sbr. 81. gr. tollalaga.

Hafi þegar verið ákveðið þegar vara kemur til landsins, s.s. í gegnum Keflavíkurflugvöll eða Reykjavík, að hún fari á annað viðurkennt geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur er heimilt að tilgreina strax í farmskrá þann geymslusvæðiskóða sem vísar til þess geymslusvæðis sem ákveðið er að varan fari í. Þetta er þó aðeins heimilt í þeim tilvikum þar sem varan stoppar á fyrsta áfangastað skemur en 48 klst. Miðast þar við komudag fars og að varan sé lögð af stað á næsta áfangastað innan 48 klst.

Í einstaka tilvikum og þegar sérstakar ástæður mæla með því er Tollstjóra heimilt að veita leyfi til geymslu ótollafgreiddrar vöru utan viðurkenndra geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur, sbr. 3. mgr. 69. gr. tollalaga og ber þá að sækja sérstaklega um slíkt leyfi til lögfræðideildar tollasviðs, sem úthlutar einkvæmum geymslusvæðiskóða fyrir hvert slíkt tilvik.

Listi yfir geymslusvæði með starfsleyfi Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum