Fréttir og tilkynningar


Virðisaukaskattur – lagabreytingar í desember 2014

19.12.2014

Hinn 16. desember 2014 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og af því tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli á þeim helstu.

Breytingar á skatthlutfalli virðisaukaskatts

Efra virðisaukaskattsþrepið lækkar úr 25,5% í 24%. Afreikningshlutfall er 19,35%.

Neðra virðisaukaskattsþrepið hækkar úr 7% í 11%. Afreikningshlutfall er 9,91%.

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2015.

Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði verður 60%

Gildistími ákvæðis til bráðabirgða nr. XV við lög um virðisaukaskatt, sem kvað á um tímabundna hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði o.fl., verður ekki framlengdur. Því lækkar endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði úr 100% í 60%.

Jafnframt fellur niður heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við frístundahúsnæði og vegna vinnu við annað húsnæði í eigu sveitarfélaga. Þá fellur niður endurgreiðsluheimild vegna vinnu við hönnun og eftirlit í tengslum við byggingu, viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði. 

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2015.

Undanþáguákvæði vegna fólksflutninga eru þrengd

Fólksflutningar verða almennt virðisaukaskattsskyldir í lægra skatthlutfalli, 11%, sbr. breytingar á 6. tölulið 3. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Gildir það jafnframt um afnot af búnaði sem skipuleggjandi ferðar leggur farþegum til vegna ferðarinnar.

Þeir fólksflutningar sem verða áfram undanþegnir virðisaukaskatti samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna eru eftirfarandi:

  1. almenningssamgöngur, þ.e. fastar ferðir á ákveðinni leið innan lands samkvæmt fyrirfram birtri áætlun, jafnt á landi, í lofti og á legi,
  2. skipulögð ferðaþjónusta fatlaðs fólks
  3. skipulagðir flutningar skólabarna
  4. akstur leigubifreiða 
  5. sjúkraflutningar

Að því leyti sem fólksflutningar eru undanþegnir samkvæmt ákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna nær undanþágan einnig til farangurs farþega og flutnings ökutækja sem er í beinum tengslum við flutning farþega.

Fólksflutningar úr landi og milli landa teljast til undanþeginnar veltu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna.

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2016.

Undanþága vegna starfsemi ferðaskrifstofa fellur niður

Undanþáguákvæði vegna ferðaskrifstofa samkvæmt 13. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt fellur niður. Starfsemi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda verður því virðisaukaskattsskyld, ýmist samkvæmt 11. gr. (m/VSK) eða 12. gr. (án VSK).

Skattskylt þjónusta ferðaskrifstofa sem ber 11% virðisaukaskatt
Þjónusta ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga, jafnt innlendra sem erlendra, að því leyti sem hún varðar sölu á vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir á Íslandi.

Undanþegin velta samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt
Velta vegna þjónustu ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda þar sem hún telst veitt utan Íslands að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa og vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands.

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2016.

Starfsemi sem verður einnig virðisaukaskattsskyld í 11% virðisaukaskattsþrepi

Aðgangseyrir að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum sem falla ekki undir ákvæði 5. töluliðar 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt (íþróttastarfsemi).

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2016.

Íþróttastarfsemi

Sú breyting sem gerð er á undanþáguákvæði vegna íþróttastarfsemi samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er ekki mikil efnislega, en undanþágan er afmörkuð með skýrari hætti en nú er. Undanþágan tekur til skipulagðrar íþróttastarfsemi, þ.m.t. til aðgangseyris að:

  • íþróttamótum
  • íþróttakappleikjum og íþróttasýningum
  • aðgangseyris og annarra þóknana fyrir afnot af íþróttamannvirkjum til íþróttaiðkunar, s.s. íþróttasölum, íþróttavöllum, sundlaugum og skíðalyftum ásamt íþróttabúnaði mannvirkjanna
  • líkamsræktarstöðvum

Aðgangseyrir að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum sem falla ekki undir ákvæði  5. töluliðar 3. mgr. 2. gr. ber virðisaukaskatt í 11% skattþrepi frá 1. janúar 2016.

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2016.

Aðrar breytingar

Heimild til færslu innskatts vegna virðisaukaskatts sem greiddur er í tolli vegna eigin innflutnings þótt einungis hluti gjaldfallins virðisaukaskatts hafi verið greiddur verður framlengd og gildir út árið 2015 samkvæmt nýju ákvæði til bráðabirgða við virðisaukaskattslög.

Heimild til þess að telja hluta söluverðs vistvænna bifreiða til undanþeginnar veltu verður framlengd til og með 31. desember 2015, sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. XXIV við lög um virðisaukaskatt. Samkvæmt ákvæðinu er við sölu bifreiðar heimilt að undanþiggja frá skattskyldri veltu fjárhæð að hámarki 6.000.000 kr. vegna rafmagns- og vetnisbifreiðar og að hámarki 4.000.000 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar. Jafnframt er tollstjóra heimilt að fella niður við tollafgreiðslu virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.530.000 kr. og af tengiltvinnbifreið að hámarki 1.020.000 kr.

Lög um vörugjald, nr. 97/1987, falla brott en brottfelld ákvæði laganna gilda þó áfram vegna sölu og afhendingar gjaldskyldrar vöru sem á sér stað fyrir 1. janúar 2015.

Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2015.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum