Vegna umræðu um launakerfi Skattsins
Vegna fjölmiðlaumræðu undanfarna daga um launakerfi Skattsins þykir rétt að koma eftirfarandi á framfæri:
Skatturinn er með skýrt og gagnsætt launakerfi sem hlotið hefur jafnlaunavottun. Hluti af því launakerfi hjá háskólamenntuðum starfsmönnum er greiðsla viðbótarlauna samkvæmt bókun 2 í kjarasamningi BHM við ríkið frá árinu 2014. Nánari útfærsla hefur átt sér stað í stofnanasamningum Skattsins og viðkomandi stéttarfélaga innan BHM.
Þeir samningar eru:
Stofnanasamningur Skattsins og Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Stofnanasamningur Skattsins við Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Verkfræðingafélag Íslands
Byggt hefur
verið á þessu kerfi síðastliðin níu ár.
Líkt og fram kemur í umræddum stofnanasamningum er sú fjárhæð sem varið er í viðbótarlaun 2% af launum allra BHM starfsmanna hjá Skattinum í samræmi við greinda bókun 2. Framkvæmdin tekur mið af reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins.
Samningarnir taka til allra háskólamenntaðra starfsmanna Skattsins hvar sem þeir starfa innan stofnunarinnar. Starfseiningar Skattsins eru tíu talsins og á hverju sex mánaða tímabili fá 25% BHM starfsmanna í hverri þeirra viðbótarlaun. Á hverju matstímabili er fjárhæðin sú sama hjá hverjum og einum. Samkvæmt þessu kerfi eru 75% BHM starfsmanna hverju sinni sem hljóta ekki viðbótarlaun.
Eins og kemur fram í stofnanasamningunum eru ýmsir þættir sem koma til skoðunar og sem tekið er mið af við heildarmat:
- Tímabundin viðbótarverkefni eða ábyrgð
- Sveigjanleiki í vinnufyrirkomulagi og umfangi starfs
- Framúrskarandi frammistaða eða afköst
- Álag vegna afleysinga vegna mikilla fjarvista annarra
Mat á frammistöðu starfsmanns byggir þannig á heildarskoðun þessara þátta á viðkomandi tímabili. Það tekur jafnt til allra BHM starfsmanna og til allra starfsþátta hjá stofnuninni, svo sem álagningarvinnu, endurálagningar, endurgreiðslna, innheimtu, hugbúnaðarúrlausna og margskonar þjónustu við viðskiptavini. Starfsmenn sem fá hæsta matið hverju sinni fá viðbótarlaun.