Fréttir og tilkynningar


Breytingar á tollskrá 1. janúar 2022

30.12.2021

Þann 1. janúar 2022 taka gildi breytingar á íslensku tollskránni samkvæmt auglýsingu um breytingu á viðauka I við tollalög nr. 88/2005 sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gefur út og verður birt í Stjórnartíðindum.

Breytingar þessar leiða af hinum reglubundnu breytingum sem eiga sér stað á fimm ára fresti samkvæmt samþykkt Alþjóðatollastofnunarinnar á hinni samræmdu alþjóðlegu tollskrá. Tollskráin var tekin upp í alþjóðlegum viðskiptum samkvæmt samningi sem gerður var að frumkvæði ráðsins 14. júní 1983. Samningurinn tók gildi gagnvart samningsaðilum 1. janúar 1988 og var Ísland meðal stofnaðila hans. Eins og áður segir eru gerðar tiltölulega viðamiklar breytingar á tollskránni á fimm ára fresti. Þetta er gert til að laga hana að breyttum aðstæðum í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og vegna breyttra áherslna við eftirlit og upplýsingaöflunar samningsríkja.

Breytingarnar eru nokkuð viðamiklar og ná yfir fjölbreytt vörusvið. Nefna má að einhverjar breytingar eiga sér stað á sjávarafurðakaflanum (3. kafli) þar sem m.a. fiskimjöl fær sérstakan vörulið (0309). Einnig færast nikótínvörur í vörulið 2404, rafmagns- og rafeindaúrgangur flokkast í nýjan vörulið (8549) og snjallsímar fá sérstakan undirlið (8517.13). Auk þess má benda á breytingar í vörulið 8704 þar sem nokkur uppstokkun á sér stað í kjölfar þess að flokkun raf- og tengiltvinnbifreiða breytist innan vöruliðarins.

Til þess að auðvelda fyrirtækjum og öðrum sem málið varðar að átta sig á breytingunum verður hér að finna Tollskrá 2022, þar sem breytingar á tollskránni eru litaðar með gulu til að auðvelda leit. Jafnframt er hér listi yfir ný tollskrárnúmer sem tekin eru upp og eins þau sem falla niður svo og umrædd auglýsing fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Gerður hefur verið samsvörunarlykill milli Tollskrár 2017 og Tollskrár 2022 til þess að auðvelda endurflokkun vöru eftir umræddar breytingar.

Veftollskrá hefur verið uppfærð en breytingar á henni verða sýnilegar 1. janúar 2022.

Tollskrá 2022 - 1. útgáfa - 30.12.2021

Samsvörunarlyklar

Skjölin eru birt með fyrirvara um villur og gætu tekið breytingum.

Sjá einnig frétt tollstjóra - Breyting á tollskrá, aðflutningsgjöldum og fleira.

Fréttin verður uppfærð með nýjustu breytingum ásamt því að unnið verður að því að birta samsvörunarlykla, útgáfur af tollskrá auk yfirlits yfir ný og brottfallin númer.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum