Fréttir og tilkynningar


Fjársýsluskattur

30.12.2011

Hlutafélög, vátryggingafélög og Evrópufélög samkvæmt lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, svo og önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki, svo og aðrir aðilar sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem og útibú, umboðsmenn og aðra sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi starfsemi sem rakin hefur verið, skulu frá 1. janúar 2012 greiða fjársýsluskatt, skv. lögum nr. 165/2011.

Opinberir aðilar sem stunda starfsemi sem fellur undir lög um fjársýsluskatt eru undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum, enda séu þeir að fullu í eigu opinberra aðila. Þessi undanþága tekur þó ekki til Íbúðalánasjóðs.

Greiða skal 5,45% fjársýsluskatt af öllum tegundum launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, eins og nánar er ákveðið í lögum um fjársýsluskatt. Undanþegnar eru eftirlauna- og lífeyrisgreiðslur og greiðslur vegna fæðingarorlofs að því marki sem þær eru ekki umfram það sem fæst endurgreitt úr Fæðingarorlofssjóði.

Fjársýsluskattur er innheimtur samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lagður á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrsti gjalddagi fjársýsluskatts á árinu 2012 skal þó vera 1. apríl vegna launa í janúar, febrúar og mars á því ári.

Allir þeir sem eru skattskyldir til fjársýsluskatts skulu ótilkvaddir og ekki síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Þeir sem stunda skattskylda starfsemi við gildistöku laga um fjársýsluskatt skulu einnig tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína. Tilkynningar skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Verði tilkynningarskyldu ekki sinnt skal ríkisskattstjóri úrskurða aðila sem skattskyldan og tilkynna honum þar um.

Greiðslutímabil fjársýsluskatts er hver almanaksmánuður. Gjalddagi er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi skattskyldur aðili ekki greitt á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga.

Reki skattskyldur aðili margþætta starfsemi, þannig að sumir þættir hennar eru skattskyldir en aðrir undanþegnir skattskyldu, skal hinni skattskyldu og undanþegnu starfsemi haldið aðgreindri bæði í bókhaldi hans og á fjársýsluskattsskýrslu.

Fjársýsluskattur telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því leyti sem hann er ákvarðaður af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.

Samhliða lagasetningu um fjársýsluskatt var gerð sú breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, aðilar sem falla undir 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga skulu ekki greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila skv. 1. mgr.

Einnig var gerð sú breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, að leggja skal sérstakan fjársýsluskatt á aðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laga um fjársýsluskatt, sem nemur 6% af tekjuskattsstofni yfir 1.000.000.000 kr. Greiða skal fyrir fram upp í þennan sérstaka fjársýsluskatt 1. apríl 2012 vegna janúar, febrúar og mars á því ári, en eftir það mánaðarlega á árinu 2012 og miðast sú greiðsla við skattstofn af reglulegri starfsemi eins og hann var í árslok 2010, miðað við skatthlutfall skv. 2. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, án tillits til samsköttunar og yfirfæranlegs taps.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum