Fréttir og tilkynningar


Fréttatilkynning um lok álagningar einstaklinga 2014

25.7.2014

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2014.

Forsendur álagningar, innheimta eftirstöðva og greiðsla inneigna.

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2014. Álagning 2014 fer fram á tekjur ársins 2013 og eignir pr. 31.12.2013. Stærsti hluti álagðra gjalda hefur þegar verið innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda. Nokkrir skattar og gjöld einstaklinga eru innheimtir eftir lok staðgreiðsluárs, svo sem útvarpsgjald, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, auðlegðarskattur og slysatryggingagjald. Álagning auðlegðarskatts er tvískipt; annars vegar er lagt á nafnverð eigna samkvæmt framtali einstaklinga pr. 31.12.2013 og hins vegar á eign í lögaðilum pr. 31.12.2012, svokallaðan viðbótarauðlegðarskatt.

Við álagningu fer ennfremur fram uppgjör staðgreiðslu og ákvörðun á barnabótum og vaxtabótum. Inneignir framteljenda verða lagðar inn á bankareikninga 1. ágúst n.k.

Fjöldi framteljenda og áætlaðir aðilar

Á skattgrunnskrá 2014 voru 268.452 framteljendur. Er það fjölgun um 4.260 frá fyrra ári. Framtalsskil gengu vel og staðfesting framtala fór yfirleitt tímanlega fram. Að þessu sinni voru það 12.478 einstaklingar sem ekki skiluðu framtali og sættu því áætlun opinberra gjalda eða 4,65% af heildarfjölda. Eru það nokkru færri aðilar en undanfarin ár.

Pappírsframtölum fækkar mikið – rafræn framtalsgerð orðin 99,59%

Framtalsgerðin er nú mun einfaldari fyrir allan þorra almennings heldur en var fyrr á árum. Þar skiptir miklu að framtöl eru að mestu útbúin fyrirfram með áritun upplýsinga inn á framtöl. Áritunarupplýsingar hafa aldrei verið jafngóðar og við álagningu 2014. Var launamiðaskilum  fylgt eftir með heimsóknum til þeirra aðila sem ekki stóðu skil á gögnum innan auglýstra tímamarka. Betri áritunargögn hafa í för með sér nákvæmari framtalsgerð og færri villur.

Rafræn stjórnsýsla hefur jafnt og þétt verið að festa sig í sessi hin síðari ár. Ríkisskattstjóri hefur leitast við að gera samskipti milli skattaðila og ríkisskattstjóra að miklu leyti rafræn. Við álagningu opinberra gjalda árið 2014 er enn nýtt metið slegið hvað það varðar. Aldrei hafa jafnmargir framteljendur skilað rafrænu framtali og við álagningu 2014.

Framtöl til vinnslu voru 256.119. Þar af voru pappírsframtöl 1.060 eða 0,41%. Við álagningu 2013 voru pappírsframtölin 4.810. Fjöldi pappírsframtala eru þannig orðinn nánast hverfandi og rafræn skattframtöl eru orðin 99,59% af þeim framtölum sem skilað er.

Framlagning álagningarskrár og kærufrestur

Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með áorðnum breytingum, skal ríkisskattstjóri leggja fram og hafa til sýnis álagningarskrár. Liggja þær frammi á starfsstöðvum embættisins um allt land næstu tvær vikur eða til 8. ágúst n.k. Kærufrestur rennur út 25. ágúst n.k.

Hagrænar upplýsingar úr álagningunni verða birtar síðar á vefsíðu ríkisskattstjóra www.rsk.is.

Reykjavík 25. júlí 2014
Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum