Álagning einstaklinga 2020 – lækkun launaafdráttar
25.5.2020
Inneignir (vaxtabætur, barnabætur og sérstakur barnabótaauki, auk ofgreiddrar staðgreiðslu) eru greiddar inn á bankareikninga 29. maí 2020. Létta má mánaðarlega greiðslubyrði með gerð greiðsluáætlana hjá innheimtumönnum ríkissjóðs.
Skatturinn er innheimtumaður ríkissjóðs í Reykjavík,
Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og í Kjósarhreppi.
Annars staðar á landinu sjá sýslumenn um innheimtu opinberra gjalda.
Upplýsingar
um innheimtumenn
Almennar fyrirspurnir um innheimtu opinberra gjalda má
senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Við álagningu þing- og sveitarsjóðsgjalda er launagreiðendum
send krafa um að þeir haldi eftir hluta af launum starfsmanna sinna sem skulda
skatta og skili inn til innheimtumanns ríkissjóðs. Ef launþegi sem skuldar
skatta vill lækka þá fjárhæð sem haldið er eftir hefur hann möguleika á að gera
greiðsluáætlun hjá Skattinum (eða þeim innheimtumanni ríkissjóðs sem sér um
innheimtu kröfunnar) til að lækka launaafdráttinn. Skatturinn er þá greiddur
upp á lengri tíma sem hefur í för með sér aukinn vaxtakostnað en lægri
mánaðarlega greiðslubyrði. Launaafdrætti er eingöngu beitt vegna þing- og
sveitarsjóðsgjalda.
Launþegi þarf að fylgjast með því að tekið sé af
launum í samræmi við álagningarseðil. Ef afdráttur af launum er ekki greiddur
til innheimtumanns er mögulegt að koma með launaseðilinn til Skattsins (eða
þess innheimtumanns sem sér um innheimtu kröfunnar) og sýna fram á að tekið
hafi verið af launum hans. Ef ekki er tekið af launum og enginn greiðsluseðill
sendur er gjaldendum bent á að hafa samband við Skattinn í síma 442-1000, eða
viðeigandi innheimtumann, og fá að millifæra greiðslu. Einnig er hægt að greiða
hjá gjaldkera á 5. hæð Tollhússins, Tryggvagötu 19, og sýslumönnum utan
höfuðborgarsvæðisins.
Ef einstaklingur er ekki í vinnu
eða starfar sjálfstætt fær hann sendan greiðsluseðil vegna vangoldinna skatta.
Eigi hann í erfiðleikum með að greiða er hægt að láta gera greiðsluáætlun hjá
innheimtumanni ríkissjóðs. Þá er greiðslunum dreift yfir lengra tímabil sem
hefur í för með sér aukinn vaxtakostnað en léttari mánaðarlega greiðslubyrði.
Innheimtuaðgerðir eru þær sömu
hvort sem skattur er lagður á samkvæmt framtali eða áætlaður. Ef um áætlun er
að ræða er mikilvægt að skila inn framtölum til að fá álagningu skatta
leiðrétta. Hafi það verið gert er hægt að miða innheimtu skatta við
bráðabirgðaútreikning. Áríðandi er fyrir skattgreiðanda að ganga frá
greiðsluáætlun í slíkum tilvikum því annars getur krafan farið í innheimtuferli
sem hefur í för með sér kostnað og óþægindi.
Í öllum tilvikum borgar það sig að hafa samband við Skattinn
eða viðeigandi innheimtumann sem fyrst ef upp koma greiðsluerfiðleikar. Með
álagningarseðlinum er sendur innheimtuseðill og á honum kemur fram hvaða
innheimtumaður ríkissjóðs er með álagninguna til innheimtu.
Innheimtumanni ríkissjóðs ber að
skuldajafna inneignum við gjaldfallnar kröfur gjaldanda. Vakin er athygli á að
skuldajöfnunarheimild á milli samskattaðra maka varðandi þing- og
sveitarsjóðsgjöld. Barnabótum er ekki skuldajafnað nema upp í ofgreiddar
barnabætur.
Nánar
um skuldajöfnuð
Þjónustufulltrúar
Þjónustufulltrúar
lögfræðiinnheimtu útbúa greiðsluáætlanir um lækkun launaafdráttar og frestun
innheimtuaðgerða vegna krafna sem Skatturinn innheimtir. Þeir eru staðsettir á
5. hæð Tollhússins, Tryggvagötu 19 og til viðtals á opnunartíma embættisins,
frá kl. 09:00-15:30 alla virka daga, nema föstudaga en þá er opið frá kl. 09:00
til 14:00. Hægt er að ganga frá flestum greiðsluáætlunum um lækkun
launaafdráttar með því að senda þjónustufulltrúum lögfræðideildar tölvupóst á
netfangið vanskil@skatturinn.is.
Yfirleitt eru margir sem leita til þjónustufulltrúa í kjölfar álagningar
opinberra gjalda og því getur biðtími eftir viðtali lengst. Það getur því
sparað tíma og fyrirhöfn að ganga frá greiðsluáætlun með tölvupósti.