Bréf frá Skattinum birtast í stafrænu pósthólfi á Ísland.is
Skatturinn vinnur nú að því að birta bréf til viðskiptavina sinna í stafrænu pósthólfi á Ísland.is.
Markmiðið er að bæta þjónustu og auka öryggi við sendingu gagna. Mikilvægt er að fylgjast vel með birtingu skjala í stafræna pósthólfinu þínu og hjá þeim félögum sem þú tengist. Á Ísland.is má stýra hvernig hnippum er háttað þegar ný bréf eru birt í pósthólfinu.
Á næstu mánuðum mun Skatturinn bæta við fleiri tegundum bréfa í stafræna pósthólfinu. Frá og með næstu áramótum eiga öll bréf frá Skattinum að birtist í stafræna pósthólfinu á Ísland.is. Breytingin er liður í innleiðingu laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Aðgangur að bréfum og tilkynningum frá Skattinum verður eftir sem áður einnig til staðar á þjónustuvef Skattsins.
Á Ísland.is er hægt að óska eftir að fá öll bréf send á pappírsformi á lögheimili samhliða birtingu í stafrænu pósthólfi, undir mínum stillingum. Einstaklingar og forsvarsmenn félaga geta sótt um sömu þjónustu með því að mæta á skrifstofu sýslumanna og framvísa skilríkjum. Réttaráhrif birtingar miðast þrátt fyrir það við tíma birtingar í stafrænu pósthólfi.