Fréttir og tilkynningar


Breytingar á tollalögum

29.6.2020

Þann 1. júlí nk. munu taka gildi eftirfarandi breytingar á tollalögum; Ákvæði um hámarksþyngd matvæla sem ferðamenn og farmenn mega hafa meðferðis til landsins eða kaupa í tollfrjálsri verslun verður hækkað úr 3 kg í 10 kg.

Reglur um gildistíma tollafgreiðslugengis sem nota skal við tollafgreiðslu tollskýrslu vörusendingar munu breytast á þá leið að miðað verði við vikugengi í stað daggengis. Þannig verður nýtt gengi skráð á hverjum mánudegi skv. eftirfarandi reglum: Við tollafgreiðslu sendinga á degi hverjum skal ákvörðun tollverðs í tollskýrslum byggð á tollafgreiðslugengi eins og opinbert viðmiðunargengi er skráð af Seðlabanka Íslands síðasta mánudag á undan. Þetta felur það í sér að gengið sem Seðlabanki skráir á hverjum mánudegi gildir frá og með þriðjudeginum eftir og fram að næsta þriðjudegi.

Ákvæði um rafrænar og skriflegar aðflutningsskýrslur verða sameinaðar í 23. gr. tollalaga. Öllum innflytjendum verður skylt að skila inn rafrænum skýrslum en þó verður heimild fyrir einstaklinga og aðila sem ekki eru á virðisaukaskattskrá til að skila inn alls tólf aðflutningsskýrslum skriflega á ári. Samræmist þetta stefnu stjórnvalda um rafræna stjórnsýslu.

Við 104 gr. tollalaga bætist ný málsgrein sem kveður á um að áfengi sem selt er í tollfrjálsri verslun af aðila sem er í meirihlutaeigu ríkis, sveitafélaga og/eða fyrirtækja í þeirra eigu skulu gæta jafnræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu áfengis. Ráðherra setur nánari reglur sem miða að því að tryggja jafnræði og gagnsæi við vöruval og innkaup á áfengi í tollfrjálsri verslun.

Ofangreindar breytingar eru skv. lögum nr. 58/2020 um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (rafræn afgreiðsla o.fl.).

Þá má einnig nefna að frá og með 1. júlí 2020 hækkar hámarksniðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns- og vetnisbifreiðum úr 1.440.000 kr. í 1.560.000 kr., sbr. 2. mgr. XXIV. bráðabirgðaákvæðis virðisaukaskattslaga nr. 50/1988.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum