Fréttir og tilkynningar


Breytingar á tollalögum

5.3.2019

Þann 20. febrúar síðastliðinn tóku gildi lög nr. 9/2019 um breytingu á tollalögum en breytingin varðar ákvæði 27., 145., 162. og 172. gr. tollalaga nr. 88/2005. Umrædd ákvæði fjalla annars vegar upplýsingagjöf um flutning fjármuna á milli landa og hins vegar VRA-vottun.

Með breytingarlögunum er kveðið á um breytingar á ákvæðum sem varða upplýsingagjöf við flutning fjármuna á milli landa og taka ákvæðin gildi 1. maí 2019. Helstu breytingar eru þær að upplýsingaskyldan mun rýmka töluvert frá því sem verið hefur þar sem hún kemur til með að ná til fleiri aðila en áður, þ.e. innflytjanda, útflytjanda, tollmiðlara, ferðamanna og farmanna. Þá nær upplýsingaskyldan einnig til sendinga sem berast til landsins og frá landinu og fjármuna sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis til og frá landinu. Orðalagi 1. mgr. 162. gr. tollalaga, sem fjallar um haldlagningu fjármuna, er breytt á þann hátt að upplýsingaskyldan er rýmkuð í samræmi við nýtt ákvæði í 27. gr. a tollalaga. Þá er nýrri málsgrein bætt við 172. gr. tollalaga en þar segir að innflytjandi, útflytjandi, tollmiðlari, ferðamaður eða farmaður sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi lætur hjá líða að gera grein fyrir fjármunaflutningum skv. 27. gr. a, ellegar veitir rangar eða villandi upplýsingar um slíka flutninga, skuli sæta sektum.

Ákvæði 3. - 6. gr. breytingarlaganna hafa þegar tekið gildi en í þeim er kveðið á um breytingar á XX. kafla A tollalaga þar sem fjallað er um VRA-vottun (vottun viðurkenndra rekstraraðila). Helstu breytingar varða 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a þar sem kveðið er á um að eitt skilyrða fyrir VRA-vottun sé það að lykilstarfsmenn og stjórnendur umsækjenda sem taldir eru upp í greininni megi ekki hafa gerst sekir um alvarleg eða ítrekuð brot gegn tilteknum lögum. Með hinu breytta ákvæði er kveðið sérstaklega á um að engu skipti hvort máli umræddra starfsmanna hafi verið lokið með sakfellingu fyrir dómi, annarri ákvörðun um sekt, beitingu stjórnsýsluviðurlaga eða á grundvelli sáttar. Með breytingunni er gildissvið ákvæðisins rýmkað þannig að ótvírætt er nú að það nær til brota óháð formi viðurlaga. Þá er bætt við nýrri grein, 145. gr. f tollalaga þar sem kveðið er á um vinnslu upplýsinga. Með greininni er Tollstjóra veitt heimild til að afla og vinna upplýsingar frá opinberum aðilum, innlendum sem erlendum, til að sannreyna að viðurkenndur rekstraraðili eða umsækjandi um VRA-vottun uppfylli skilyrðin sem kveðið er á um í kaflanum. Leiði upplýsingar til þess að skilyrði til VRA-vottunar séu ekki talin uppfyllt er Tollstjóra skylt að upplýsa viðkomandi um ástæður þess. Þar á meðal ber Tollstjóra að upplýsa umsækjendur eða viðurkennda rekstraraðila um það ef stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn þeirra sem bera ábyrgð á tollamálum eða umboðsmenn hafi gerst sekir um brot skv. 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a. Þá skal listi með heitum og kennitölum viðurkenndra rekstraraðila vera aðgengilegur öllum á vefsvæði Tollstjóra.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum